133. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2018.

575. mál
[22:36]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Einhver lausung hefur komist á mælendaskrána, ég hélt ég væri alveg með góðan tíma til að ganga út að þinghúsinu, maður á mælendaskrá og annar í ræðustólnum á undan mér. En ég ákvað að biðja aftur um orðið vegna þess að ég taldi ástæðu til að nefna atriði sem ég hafði ekki tíma til að fara yfir í ræðu minni fyrr í dag og mér finnast mikilvæg.

Svo ég byrji á einhverju þá finnst mér ástæða til að fagna ýmsu sem er í áætluninni. Ég tel t.d. að ástæða sé til að fagna því að náðst hefur góð samstaða um lausn fyrir Bolvíkinga. Jarðgöngin þangað eru gríðarlega mikil bót og framtíðarlausn á samgöngumálum milli Bolungarvíkur og Ísafjarðar og ber auðvitað að nefna það í umræðunni.

Þá langar mig til að fjalla pínulítið um veggjöldin líka vegna þess að ég hafði ekki tíma til að gera það á þann hátt sem ég hefði viljað. Ég tel að mikil nauðsyn sé á því — úr því að uppi eru hugmyndir um að nýta slíka tekjustofna í framtíðinni, a.m.k. virðist vera að hæstv. samgönguráðherra hafi áhuga á því — að það mál verði skoðað vandlega með þau vandamál í huga sem fylgja slíkri gjaldtöku. Það er alveg ljóst að þetta hefur áhrif á byggðirnar og þetta hefur áhrif á byggðaþróun í kringum þau samgöngumannvirki sem þannig eru fjármögnuð. Ég tel því að menn þurfi að skoða það vandlega og ég hvet til þess að gerð verði sérstök skoðun á byggðaþróun annars vegar í Borgarfirði og hins vegar fyrir austan fjall og borinn saman sá tími sem búið er að reka Hvalfjarðargöng. Þarna eru svæði sem eru sambærileg og það hefur orðið allt öðruvísi íbúaþróun og uppbyggingarþróun á þeim tveimur svæðum þann tíma sem Hvalfjarðargöng hafa verið rekin. Þess vegna tel ég ástæðu til að menn skoði sig vandlega um áður en haldið er áfram á þeirri braut sem þar er farin. Það er full ástæða til að skoða þessi mál vegna þess að greinilega eru uppi hugmyndir um að halda slíkri gjaldtöku áfram, jafnvel í Hvalfirði. Ýmsir aðilar virðast hafa þá skoðun að það sé bara allt í lagi að selja aðgang að höfuðborginni og frá henni á einni samgönguæðinni af þremur aðalæðum til og frá borginni. Þetta tel ég ekki koma til greina til framtíðar. Það er nógu mikið að gert að láta þá íbúa sem hafa borið uppi þann kostnað fram að þessu greiða það sem þeir hafa gert fram á þennan dag. Þarna verða menn að gá að sér að fara ekki út í öfgar því að það eru öfgar ef við förum að hafa áhrif á byggðaþróun með slíkum hætti.

Ég hef einhvern veginn ekki á tilfinningunni að mögulegt sé að beita slíkum gjaldtökum nema því aðeins að þær verði þá útfærðar með einhverjum almennum hætti, þar sem yrði þá farið inn í eitthvert allt annað umhverfi að innheimta gjald af samgöngumannvirkjum og þar sem víðs vegar kæmu inn einhvers konar greiðslur sem vegfarendur mundu greiða. Ég er ekki með tillögur um slíkt en ég tel að menn verði að fara mjög vandlega yfir þetta.

Mig langar til að nefna aðeins hugmyndirnar um Bakkafjöru og höfnina þar. Mér finnst að ekki hafi verið talað nógu jákvætt um þær hugmyndir. Ég er á þeirri skoðun að hvort sem menn horfa inn í framtíðina með það fyrir augum að einhvern tíma verði gerð göng til Vestmannaeyja eða ekki, sé sjálfsagt mál að ganga það til enda að skoða þessa Bakkafjöruhugmynd. Við getum alveg gefið okkur það strax og fyrir fram að það verði miklu betri samgöngur til Vestmannaeyja með því að gera höfn við Bakkafjöru og tengja Eyjarnar við land með ferju, eins og þar er gert ráð fyrir, heldur en þær samgöngur sem eru núna og jafnvel þó að menn færu í að kaupa dýrt skip, nýjan Herjólf sem yrði enn þá dýrari en sá sem fyrir er. Þeir möguleikar sem höfn við Bakkafjöru gefa Vestmannaeyingum eru að mínu viti mjög góðir. Hægt væri að bjóða upp á ferju a.m.k. á tveggja tíma fresti, jafnvel á eins og hálfs tíma fresti milli lands og Eyja og möguleikarnir, ef tengingin til lands verður til þess að — ja, hún verður auðvitað til þess að þarna verður til eitt atvinnusvæði og þá væri hægt að bæta við annarri ferju og vera með ferðir á klukkutíma fresti milli lands og Eyja ef þörfin verður fyrir það. Ég tel að jafnvel þó að menn hugsi sér að fara í jarðgöng séu þessir möguleikar algjörlega sjálfsagðir á undan þeim jarðgöngum af því að þau eru svo langt inni í framtíðinni og Vestmannaeyingar þola ekki svona vondar samgöngur eins og þeir hafa þann tíma sem mun líða þangað til þeir hugsanlega fá slík jarðgöng.

Ég hef búið á Akranesi lengi og við höfðum Akraborgina. Hún gekk ekki nema á þriggja tíma fresti milli Akraness og Reykjavíkur. Það voru samt samgöngur sem við nýttum okkur fullkomlega og þó var klukkutíma sigling þar á milli. Hér erum við að tala um 35 mínútna siglingu. Síðan gleyma menn því kannski dálítið í umræðunni að sú tenging sem fæst þá upp á landið strax og þessi ferjuhöfn er komin, mun búa til eitt atvinnusvæði úr Vestmannaeyjum og nærliggjandi héruðum á Suðurlandi. Ég tel að það sé gríðarlega mikilvæg hugmynd sem þarna er á ferðinni og ég vona sannarlega að hún gangi eftir. Ég tel að fráleitt sé að halda því fram að það verði til þess að drepa hugmyndir um göng því að þessi framkvæmd er nú ekki dýrari en það, ef menn miða við þann kostnað sem er af því að reka Herjólf og ef menn þurfa að kaupa nýjan Herjólf til þess að reka, að þá fer nú að ganga töluvert á upphæðina sem það kostar að koma upp ferjuhöfn og ferjunni sem þar fylgir, sem er náttúrlega miklu, miklu ódýrari farkostur en nýr Herjólfur yrði. Mér finnst mikilvægt að koma þessu að í umræðunni.

Mig langar síðan til að ræða aðeins meira um framkvæmdir sem eru fram undan í Norðvesturkjördæmi og ég vil nefna að sumt er ekki í áætluninni sem þar ætti að vera. Mér finnst t.d. svolítil skömm að því að ekki skuli vera gert ráð fyrir að klára uppbyggðan veg á milli Hólmavíkur og Drangsness, að það skuli ekki vera í langtímaáætluninni. Ég verð að segja að í þeim byggðum sem eiga í slíkri vök að verjast eins og þar er reyndin, að þar er nauðsynlegt að hafa það sem hluta af byggðaátakinu að gera nothæfan veg á milli þessara byggðarlaga. Ég beini því til samgöngunefndar að skoða þennan hlut í störfum sínum vegna þess að það er ekki vansalaust að þetta skuli ekki vera í áætluninni og ég hvet til þess að menn skoði það með jákvæðu hugarfari.

Við fáum tækifæri til að halda áfram umræðum um samgönguáætlun við fjögurra ára áætlunina og þessi umræða núna er orðin býsna löng og ég veit að það er farið að fækka svolítið í þingsölum. Ég ætla því að geyma mér þær ræður sem ég hefði annars viljað halda eða halda svolítið lengri ræðu en þessa þangað til við ræðum um fjögurra ára áætlunina.