133. löggjafarþing — 73. fundur,  19. feb. 2007.

ráðstefna klámframleiðenda.

[15:07]
Hlusta

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Eins og ég kom inn á áðan snýst þetta, held ég, ekki bara um persónulegar skoðanir okkar hvers fyrir sig heldur held ég að okkur öllum sé það ljóst að það stangast á við siðræn viðhorf okkar Íslendinga að þeir sem eru með skipulagða starfsemi í kringum klámiðnaðinn komi til Íslands í hvataferðir. Þegar skoðuð er heimasíða þessara aðila kemur í ljós að erindið er m.a. eins og segir, og nú vitna ég í þetta á ensku, með leyfi forseta, „… a chance to conduct business, meet new people and discuss business developments“ o.s.frv. Hér er greinilega um viðskiptatækifæri að ræða af hálfu þessara aðila.

Því spyr ég forsætisráðherra aftur hvort ekki sé þá leið að koma þeim skilaboðum til þessara aðila að hingað séu þeir einfaldlega ekki velkomnir. Það er aldrei að vita þá hvernig tekið verður á móti þeim (Forseti hringir.) af íslenskum almenningi ef þeir leggja leið sína hingað í hvataferð.