133. löggjafarþing — 73. fundur,  19. feb. 2007.

þjónustusamningur við SÁÁ.

[15:19]
Hlusta

Valdimar L. Friðriksson (Fl):

Frú forseti. Þjónustusamningur ríkisins við SÁÁ rann út í lok árs 2005. Fram hefur komið í fjölmiðlum að töluverður halli er á rekstri SÁÁ sem mun leiða af sér niðurskurð á þjónustu við áfengis- og vímuefnasjúklinga eða þá jafnvel gjaldþrot á starfseminni allri.

Heilbrigðisráðherra hefur lagt fram fjárlög án þess að gera þjónustusamning við SÁÁ og hafa verið gerðar athugasemdir við þau vinnubrögð m.a. af Ríkisendurskoðun. Mig langar að spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra hvort ráðherra hyggist gera nýjan þjónustusamning við SÁÁ og þá hvenær.