133. löggjafarþing — 73. fundur,  19. feb. 2007.

þjónustusamningur við SÁÁ.

[15:19]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég hefði gjarnan viljað vera búin að gera þennan þjónustusamning. Við höfum átt í viðræðum við SÁÁ og þær viðræður standa yfir nú sem stendur. Ég vona að við séum að þokast í átt að samkomulagi. Á fjárlögum þessa árs eru, að mig minnir, 574 eða 576 milljónir settar til þjónustu SÁÁ. Þarna er um raunhækkun að ræða en samt hafa menn ekki náð saman enn sem komið er. En við erum öll af vilja gerð að ná þessum þjónustusamningi og ég vona að það muni takast.

Vegna þessarar fyrirspurnar vil ég líka benda á að utandagskrárumræða er fyrirsjáanleg á miðvikudaginn um áfengis- og vímuefnameðferð og þá gefst þingmönnum kostur á að ræða þessi mál frekar. Við erum öll af vilja gerð að reyna að ná samningum en það þarf tvo til og menn þurfa að vera ásáttir um hvaða upphæð á að renna til samningsins en fjárlögin binda auðvitað hendur okkar að vissu leyti. Það eru 574 eða 576 millj. kr. settar til þessarar þjónustu og spurning hvort við getum hækkað þá upphæð eitthvað. Um það standa þær viðræður sem nú eru í gangi og ekki er búið að ljúka.

Það eru ýmis mál sem eru flókin til úrlausnar varðandi þjónustusamninginn og þar get ég nefnt bæði fasteignaskatta og lífeyrisskuldbindingar. Það er ekki allt á valdi heilbrigðisráðuneytisins, fjármálaráðuneytið er allt af vilja gert líka. Þessi mál eru því öll til skoðunar núna og vonandi náum við samningum sem fyrst, en ég get ekki lofað því nákvæmlega hvenær það verður.