133. löggjafarþing — 73. fundur,  19. feb. 2007.

þjónustusamningur við SÁÁ.

[15:23]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Það er alls ekki þannig að eitthvert þras sé á milli tveggja ráðuneyta, eins og hv. þm. Valdimar Leó Friðriksson gaf í skyn. Hins vegar eru sum þau atriði sem SÁÁ hefur viljað ræða um við okkur á forræði fjármálaráðuneytisins. Það er eins og með marga aðra þjónustusamninga, þeir eru ekki allir algerlega hreinir á hendi eins ráðuneytis. Það þurfa fleiri að koma þar að og mikill vilji er til þess í fjármálaráðuneytinu. En þeir tveir aðilar sem þurfa að sjálfsögðu að ná saman eru SÁÁ og ríkið, hið opinbera, og að því er stefnt. Við eigum viðræður við þá og ég tel að það starf sem þeir hafa verið að vinna að sé mjög gott og brýnt og þótt samningurinn sé runninn út er unnið áfram eftir þjónustusamningnum (Gripið fram í.) sem var í gildi á sínum tíma. Við þurfum að ná niðurstöðu og ég er bjartsýn fyrir okkar hönd í því máli en við þurfum að ákveða hvaða upphæð fer í samninginn og hvernig fjármagninu er varið. Um það mál erum við í viðræðum við SÁÁ.