133. löggjafarþing — 73. fundur,  19. feb. 2007.

vaxtarsamningur fyrir Norðurland vestra.

[15:28]
Hlusta

Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég ítreka að um er að ræða annað tveggja svæða á landinu þar sem hagvöxtur hefur verið neikvæður um langt árabil, eða átta síðastliðin ár af þeim tólf sem Framsókn og Sjálfstæðisflokkur hafa haldið um stjórnvölinn í landinu. Aðeins er gert ráð fyrir 60 millj. kr. á allt Norðurland vestra á þriggja ára tímabili í þennan samning og þetta eru auðvitað smáaurar. Þetta er minna en Kaupfélag Skagfirðinga leggur eitt til þróunar skólamála í Skagafirði. Þetta eru smáaurar þegar við erum að tala um svæði sem hefur verið vanrækt jafnhroðalega eins og við þekkjum að hefur verið gert á Norðurlandi vestra og reyndar á Vestfjörðum líka þar sem sama smánarupphæðin var sett í vaxtarsamning. Það er skaði að því að vera að byggja upp falskar vonir eins og gert er með vaxtarsamningum sem allt of litlir peningar eru í. Ég spyr því: Hvenær má búast við að í ljós komi hvað á að gera til að betrumbæta þennan samning?