133. löggjafarþing — 73. fundur,  19. feb. 2007.

vaxtarsamningur fyrir Norðurland vestra.

[15:29]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Jón Sigurðsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég fullyrði að fyrir liggur, m.a. í þeim gögnum sem vísað er til um hagvöxt á undanförnum árum, að það er ekki stjórnarstefnan sem um er að ræða í því sambandi heldur samsetning atvinnulífsins og hversu það einkennist af frumframleiðslugreinum sem eru í mikilli hagræðingu og umbreytingu og ekki hafa komið önnur atvinnutækifæri í nægilegu magni og hraða á sama tíma í staðinn.

Við erum að vinna að þessu verkefni núna. Ég get ekki skýrt frá því í svari við óundirbúinni fyrirspurn á hvaða stigi það er einmitt í dag eða á þessari stundu en unnið er að þessu af mikilli alvöru, enda er mikil nauðsyn að það takist að bregðast vel við og auka fjármagnið. En við verðum auðvitað líka að hafa það í huga að vaxtarsamningar ganga ekki fyrst og fremst út á það að fjárveitingar séu úr ríkissjóði heldur ganga þeir fyrst og fremst út á það að vera samstarfssamningur við aðila í héraði um framfarir og uppbyggingu.