133. löggjafarþing — 73. fundur,  19. feb. 2007.

kjaradeila grunnskólakennara.

[15:34]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að geta þess að ég svaraði aðspurð hvernig mér þætti ef stefndi í verkfall og þá sagði ég að það væri ólíðandi staða. Ég tel það ólíðandi ef málum er þannig hagað að við stefnum í verkfall. Ég vil enn og aftur ítreka það sem hæstv. forsætisráðherra gerði í svari við fyrirspurn þess sama hv. þingmanns og kemur hingað upp varðandi þetta mál að þetta mál er hjá sveitarfélögunum og er málefni sveitarfélaga og grunnskólakennara. Það er samt ekki þannig að við sem hér erum séum skoðanalaus eða getum leyft okkur það. Hins vegar bind ég enn miklar vonir við það að sveitarfélögin, Kennarasambandið og Félag grunnskólakennara nái saman því að málið er brýnt og það er ólíðandi að samfélagið verði aftur á innan við þremur árum hugsanlega heltekið af verkföllum. Við vitum hvaða alvarlegu afleiðingar það getur haft fyrir börnin okkar og allt skólastarfið. Hagsmunirnir eru ríkir og þeir eru miklir.

Ég sagði líka í þessu viðtali og verð að segja það alveg eins og er að ég hefði kosið að sjá samningsaðila nýta betur þann tíma sem núna er liðinn frá því að verkfallið átti sér stað. Þá er ég að tala um að við verðum að horfast í augu við hlutina eins og þeir eru. Kennarar eru ekki á háum launum. Til þess að hafa góða kennara inni í skólunum og halda þeim þurfa þeir að fá betri laun. Núverandi aðferðafræði dugar hins vegar skammt til að hækka kennara í launum. Þess vegna hef ég kosið að menn færu almennt séð, og breitt, yfir skólastarfið. Skólarnir hafa breyst mjög mikið á síðustu árum. Ábyrgð kennara er mun meiri í dag en hún var á árum áður og þess vegna þarf að fara á víðtækum grundvelli yfir málefni grunnskólakennara og hvernig kennsluhættirnir hafa þróast. Þess vegna segi ég að ég hefði viljað sjá tímann nýttan betur.