133. löggjafarþing — 73. fundur,  19. feb. 2007.

kjaradeila grunnskólakennara.

[15:37]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Frú forseti. Ég tek undir það með hæstv. ráðherra, það er algjörlega ólíðandi ef stefnir í aðra kjaradeilu á svo skömmum tíma, annaðhvort fjöldauppsagnir eða annað verkfall. Hæstv. ráðherra sagði áðan að tíminn hefði ekki verið nýttur vel og er hægt að taka undir það. Þess vegna er ástæða til að varpa því upp í umræðum um þessi mál að hæstv. ráðherra taki það formlega upp við sveitarfélögin í landinu og forustumenn kennara hvort það fyrirkomulag að launanefnd fari með þessi mál fyrir öll sveitarfélögin í viðræðum kennara sé ekki orðið úrelt, hvort það fyrirkomulag hafi ekki dæmt sig úr leik, hvort fyrirkomulagið tefli ekki skólastarfi í voða ár eftir ár aftur og aftur. Þetta þarf að endurskoða. Ráðherrann ber hiklaust ábyrgð á þeim málaflokki að tryggja grunnskólamenntun barnanna. Ríkisstjórnin setti lög á kennaradeiluna fyrir tveimur árum og ber því enn þá ríkari ábyrgð á málum en ella. Þess vegna verður hæstv. ráðherra að taka utan um málið og kanna hvort ekki megi koma í veg fyrir að stefni aftur í óefni, skólastarfinu í voða og hvort þessar leiðir verði ekki að kanna.