133. löggjafarþing — 73. fundur,  19. feb. 2007.

kjaradeila grunnskólakennara.

[15:38]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Það er samt einkennilegt að þegar við ræðum málefni sveitarfélaganna, þegar málefni koma upp eins og þau sem tengjast og eru í samskiptum milli sveitarfélaga og kennara, komi Samfylkingin sem hefur alltaf ítrekað það — hér mátti ekki ræða það að leggja ákveðnar álögur á sveitarfélögin varðandi einkaskóla og sjálfstæða skóla af því að þá kom Samfylkingin og talaði um sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaga en síðan þegar við komum að þessu máli gufar sá sjálfsákvörðunarréttur upp og sveitarfélögin eiga allt í einu ekkert að hafa um málið að segja, ég á að taka launanefndina af og skipta mér beint af málinu.

Ég tel mikilvægt að ábyrgð sveitarfélaga sé rík, og hún er rík. Sveitarfélögin axla hana, skólastarfið hefur tekið miklum framförum á undanförnum árum. Sveitarfélögin verða líka að skoða það sérstaklega hjá sér og mér sýnist formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga sérstaklega hafa lagt sig fram í þeim efnum að reyna að nálgast hlutina á nýjan hátt. Ég held að báðir samningsaðilar verði að axla ábyrgð í þessu máli og reyna að hugsa málið upp á nýtt þannig að það verði skólasamfélaginu og börnunum okkar til heilla. Við erum sammála um það, ég og hv. þingmaður, að það þarf að skoða málin út frá öðrum sjónarhornum.