133. löggjafarþing — 73. fundur,  19. feb. 2007.

kjaradeila grunnskólakennara.

[15:39]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Frú forseti. Það vafðist ekki fyrir ríkisstjórninni og hæstv. menntamálaráðherra að vaða á skítugum skónum yfir sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaganna þegar lög voru sett á kjaradeilu kennara fyrir tveimur árum. Það vafðist ekki fyrir hæstv. ráðherra að vaða yfir sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaganna í fyrra þegar lög voru sett um einkarekna grunnskóla. Hér er enginn að kalla eftir því að það sé vaðið yfir sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaganna. Samfylkingin hefur talað fyrir því umfram annað að tekjustofnar sveitarfélaga verði styrktir og endurskoðaðir þannig að sveitarfélögin, bæði smá og stór, geti staðið undir því risastóra verkefni og þeirri miklu ábyrgð að reka grunnskóla landsins. Síendurteknar vinnudeilur, hópuppsagnir og verkföll gefa einfaldlega afskaplega sterkar vísbendingar svo að vægt sé til orða tekið um að það þurfi að endurskoða og styrkja tekjustofnana. Sveitarfélögin bera ekki þá ábyrgð heldur ríkisvaldið sem verður að koma að málinu með því að styrkja tekjustofnana. Ríkisstjórnin setti lögin á kjaradeiluna og þess vegna getur hæstv. menntamálaráðherra ekki sagt: Þetta kemur mér ekki við, ég ber ekki ábyrgð á málinu. Hæstv. ráðherra ber beina ábyrgð á þessu máli.