133. löggjafarþing — 73. fundur,  19. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2010.

574. mál
[16:03]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. samgönguráðherra segir að þjóðin standi með sér í að gera stórátak í vegagerð. Ég hugsa að það sé rétt samanber boðskap formanns Samfylkingarinnar sem vill beita sér fyrir stórátaki í samgöngumálum. En ég spyr: Er það trúverðugt þegar hæstv. núverandi ríkisstjórn með samgönguráðherra í broddi fylkingar kemur hér og boðar þetta átak vegna þess hvað sporin hræða í niðurskurði eftir kosningasamgönguáætlanir undanfarinna alþingiskosninga?

Á undanförnum þremur árum hafa framkvæmdir verið skornar niður fyrir 6 milljarða miðað við það sem boðað var rétt fyrir kosningar. Þar að auki hefur ríkisstjórnin sett sem gjaldalið á Vegagerðina ýmsa þætti eins og ferjur, áætlunarflug, sérleyfi á landi og annað sem má telja upp á einn og hálfan milljarð kr. án þess að tekjustofn komi til Vegagerðarinnar vegna þessa. (Forseti hringir.) Virðulegi forseti. Er þetta trúverðugt?