133. löggjafarþing — 73. fundur,  19. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2010.

574. mál
[16:07]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er auðvitað alltaf hægt að segja sem svo að við ættum að hækka skatta, leggja á sérstaka ferjuskatta, leggja á sérstaka styrkjaskatta vegna flugs á jaðarsvæði o.s.frv. En við höfum valið þann kostinn að auka framlög til samgöngumála og nýta þau m.a. í þetta verkefni sem hv. þingmaður nefndi.

Allar þær frestanir — og hv. þingmenn tala alltaf um niðurskurð, en það hefur ekkert verið skorið niður. Við höfum frestað framkvæmdum vegna þenslu á vinnumarkaði. Við höfum ekki skorið niður og allar þær frestanir eru inni í samgönguáætluninni. Til viðbótar bættum við 15 milljörðum við vegna símasölunnar, þannig að tal um að niðurskurður sé í gangi er rangt. Hv. þingmenn ættu að lesa samgönguáætlunina betur heima. Allar frestanir eru komnar inn aftur.