133. löggjafarþing — 73. fundur,  19. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2010.

574. mál
[16:40]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er ómerkilegt hjá hæstv. ráðherra. Auðvitað er hæstv. ráðherra illa við að vitnað sé til árangurs hans sem ráðherra og hvernig staðið hafi verið við vegáætlun síðustu fjögur árin. Verkin tala. Þar hefur verið beitt niðurskurði og var þó áætlunin allt of veik fyrir. Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði hefðum viljað leggja enn meiri áherslu á vegaframkvæmdir síðustu fjögur árin þannig að það eru verkin sem tala.

Varðandi þá áætlun sem við erum að ræða, fjögurra ára áætlunina, er hún meira framkvæmdaáætlun. Ég bið hæstv. ráðherra að átta sig á því að við erum hér í rauninni að tala um framkvæmdaáætlun en ekki viljayfirlýsingu þó svo að það sé vilji þingsins að þessari áætlun verði fylgt. Samgöngunefndin mun fara yfir það og bæta þar um. Þetta þarf allt að vera raunhæft og við þurfum að hafa fjármagn til þess. Mér finnst ekki vera raunhæft að vera með óútfyllta fjármögnun á þeim vegaframkvæmdum sem hérna er verið að tala um að ráðast í upp á yfir 10 milljarða kr. sem á bara að taka einhvers staðar. Mér finnst það ekki ábyrg eða raunhæf stefna, frú forseti, þó að þessar framkvæmdir séu allar brýnar. Það er mjög mikilvægt að við þær verði staðið og að þá sé líka lögð áhersla á að á fjárlögum verði tryggt fjármagn til að ráðast í þessar framkvæmdir en ekki láta þetta bara óútfyllt.

Ég kem svo betur að einstaka framkvæmdum í seinni ræðu minni en bendi á að ein af leiðunum sem hér eru lagðar til til þess að fjármagna almennt vegakerfi í landinu er að halda áfram veggjaldi í gegnum Hvalfjarðargöngin, miklu hærra gjaldi (Forseti hringir.) en þarf til þess að greiða kostnað við göngin sjálf, til að fjármagna aðrar framkvæmdir og (Forseti hringir.) það finnst mér ekki vera réttlátt, frú forseti. (Samgrh.: Það er rangt sem hv. þingmaður segir.)