133. löggjafarþing — 73. fundur,  19. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2010.

574. mál
[17:19]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég get út af fyrir sig tekið undir það með hv. þingmanni að það er ekki eingöngu þenslan eða áhrif frá stóriðjuframkvæmdum sem hafa leitt til þess að vinnumarkaðurinn kallaði eftir að við hægðum á.

Það er alveg ljóst að byggingariðnaðurinn fór mjög bratt áfram, ekki síst á höfuðborgarsvæðinu, en stóriðjuframkvæmdirnar fyrir austan og þessi ógnarsprenging í byggingariðnaðinum á höfuðborgarsvæðinu, og raunar langt út fyrir það, hafði mikil áhrif sem leiddi til þess að ríkisstjórnin varð að grípa til þeirra aðgerða sem hún gat. Niðurstaðan varð sú að hægja á framkvæmdum í vegamálum. Ég geri engar athugasemdir við þessar skýringar hv. þingmanns og tek í rauninni undir þær að þessu leyti.

Hvað varðar misræmi í texta er ekki um það að ræða. Við erum með tilteknar fjárveitingar í heildina í jarðgangaframkvæmdirnar. Ég geri ráð fyrir því að það verði hægt að fara í gegnum Héðinsfjarðargöngin seint á árinu 2009 og að framkvæmdum verði síðan endanlega lokið væntanlega á árinu 2010 þótt búið verði að opna.

Síðan vitum við ekki hvaða tilboð við fáum í jarðgöngin til Bolungarvíkur en við gerum ráð fyrir því að fjárveitingar komi til jarðganga til Neskaupstaðar. Útboðið gerir ráð fyrir því að verktakar fái greiðslur nokkru eftir að framkvæmdir eru hafnar og það er ekkert sem bannar það.

Það ætti að vera rými til (Forseti hringir.) að semja þrátt fyrir það þannig (Forseti hringir.) að þarna er ekkert misræmi á ferðinni.