133. löggjafarþing — 73. fundur,  19. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2010.

574. mál
[17:22]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra skýringarnar. Misræmið sem ég fjallaði um var annars vegar gagnvart lokum Héðinsfjarðarganganna og hins vegar gagnvart lokum Óshlíðarganganna, þ.e. að Arnarfjarðargöngin ættu að hefjast strax en sá texti varðar ekki Norðfjarðargöngin.

Ég tel að hæstv. ráðherra hafi skýrt þetta nægilega til að við áttum okkur á því að hér eru menn að velta því fyrir sér að í útboði gæti hugsanlega samist um lán frá verktökum eða gjaldfrest. Það er vissulega ekki útilokað og hugsanlega gætu líka lántökur komið inn þannig að það er fagnaðarefni að hæstv. ráðherra tekur af allan vafa í þessu og skýrir málið verulega.

Það er hins vegar spurning hvort hæstv. ráðherra geti einnig í seinna andsvari sínu tekið undir að það væri eðlilegt að nýta þann tíma sem áætlaður er fyrir rannsókn á Norðfjarðargöngunum til að velta fyrir sér þeim möguleika sem nefndur er á Miðausturlandi, þ.e. að þau göng sem þar er rætt um verði skoðuð í samhengi. Það er alveg augljóst mál að það verður alltaf að líta á Norðfjarðargöng svokölluð sem fyrsta áfanga í göngum á Miðausturlandi ef þau eru ekki gerð samhliða.

Það hlýtur að vera eðlilegt að rannsóknirnar séu settar þannig upp að sá möguleiki sé til staðar að þetta verði gert sem heildarframkvæmd. Ég vitna í orð hæstv. ráðherra um að þar sé hugsanlegt að semja við verktaka um málið, líkt og hæstv. ráðherra talaði um, að þrátt fyrir að göngin yrðu boðin út árið 2009 en ekki áætlaðir peningar fyrr en 2011 væri hægt að brúa það bil með samningum við verktaka.