133. löggjafarþing — 73. fundur,  19. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2010.

574. mál
[17:24]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég bara undirstrika það sem nauðsynlegt er að sé alveg skýrt, áætlanir okkar gera ráð fyrir því að framkvæmdir við Óshlíðargöngin byrji eins fljótt og nokkur kostur er. Hönnun verður sett á fulla ferð og vonandi dregst það ekki. Þau verða unnin samhliða Héðinsfjarðargöngunum og síðan er gert ráð fyrir því að útboðið, svo að það sé bara undirstrikað, á Neskaupstaðargöngunum, verði á árinu 2009 og að Arnarfjarðar-/Dýrafjarðargöngin fari af stað og verði þá boðin út þannig að hægt verði að setja þau í framkvæmd strax og Bolungarvíkurgöngin eru tilbúin. Þannig er þetta hugsað.

Hvað varðar aðrar jarðgangaframkvæmdir á Miðausturlandi þarf í samstarfi við sveitarfélögin að velta fyrir sér þessu heildarskipulagi samgöngukerfisins þar sem mætti leysa sumt með því að grafa göng eins og hefur verið talað um. Auðvitað þarf að miða við að ekki verði búið að byggja yfir alla hugsanlega jarðgangamunna á Austurlandi þannig að það verði að hætta við jarðgöng þess vegna.

Mér finnst t.d. að kirkjan á Eskifirði hefði betur verið einhvers staðar annars staðar, hún er nákvæmlega þar sem jarðgangamunnur ætti helst að vera. Það er á margt að líta í þessu og sveitarfélögin og Vegagerðin þurfa að skoða heildarskipulagið og marka til langs tíma þær ákvarðanir sem tengjast stórum ákvörðunum eins og þeim hvar jarðgöng eigi að koma, hvar þau eigi að tengja saman byggðirnar.

En nú eru menn farnir að tala um svo stórfelldar framkvæmdir og bjartsýnin svo mikil í kjölfar stjórnarstefnunnar að það ber að fagna því að stjórnarandstaðan (Forseti hringir.) skuli geta gert ráð fyrir öllum þessum framkvæmdum eftir að við höfum stjórnað hér í 16 ár.