133. löggjafarþing — 73. fundur,  19. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2010.

574. mál
[17:42]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon vakti athygli á því sem er alveg rétt, að vinna þarf vel að því að byggja upp tengivegina og við gerum ráð fyrir því í samgönguáætluninni að auka framlög til uppbyggingar tengiveganna, en verkefnin eru geysilega mikil.

Ég vil vekja athygli hv. þingmanna á bls. 115 í þingsályktunartillögunni. Þar er tafla yfir lengd þjóðveganna á landinu samtals. Þar kemur fram að t.d. Suðurkjördæmi er með 3.555 km á meðan Suðvesturkjördæmi er með 274 km og Reykjavíkurkjördæmi með 115 km meðan Norðvesturkjördæmi er með í heildina 5.091 km og Norðausturkjördæmi með 4.003 km í vegum. Tengivegirnir — af því að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon nefndi þá sérstaklega — í Suðurkjördæmi eru 1.105 km, í Norðausturkjördæmi 1.037 og í Norðvesturkjördæmi 1.753 km. Það eru því mjög margir kílómetrar í hverju kjördæmanna en langlengstu tengivegirnir eru í Norðvesturkjördæmi. Þar er vissulega verk að vinna og við þurfum að vinna vel að því að tryggja fjármuni til þess að þarna verði hægt að gera verulegt átak í uppbyggingu tengiveganna og það er hin nýja stefnumörkun sem fram kemur í áætluninni, að við viljum láta verulega meiri fjármuni þar inn.