133. löggjafarþing — 73. fundur,  19. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2010.

574. mál
[17:46]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir viðbrögðin. Það er alveg ljóst að við eigum þar sameiginlegt áhugasvið sem er að leggja áherslu á uppbyggingu þessara vegarkafla. Það er annað en hægt er að segja um hv. þingmenn Samfylkingarinnar sem eru allt of fáir hér inni til að hlusta á það sem ég ætla að segja og stangast algerlega á við afstöðu okkar hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar.

Í grein sem birtist í Blaðinu um helgina eftir Helga Hjörvar er fjallað um þá ósvinnu ráðherra Sjálfstæðisflokksins að leggja fram samgönguáætlun með þeim áherslum sem þar koma fram. Þar segir, með leyfi forseta:

„Sem kunnugt er hefur mikill áhugi verið í tíð þessarar ríkisstjórnar á jarðgangagerð milli fáfarinna staða. Svo fáfarinna raunar að fréttir herma að þau nýjustu séu notuð til kappakstursæfinga, enda ótrúleg framför á snjóþungum svæðum að fá yfirbyggðar kappakstursbrautir með þessum hætti án nokkurs tilkostnaðar.“

Þetta er afstaða þingmanns Samfylkingarinnar, Helga Hjörvars, og í þeirri umræðu sem við eigum núna um tengivegi og uppbyggingu á landsbyggðinni er þetta náttúrlega alveg ótrúlegt innlegg. Þetta er leiðin sem hv. þingmenn Samfylkingarinnar vilja fara gagnvart landsbyggðinni. Ég fagna þess vegna viðbrögðum hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar þegar við ræðum um tengivegi.