133. löggjafarþing — 73. fundur,  19. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2010.

574. mál
[17:48]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Nú fór í verra, herra forseti, ég ætla algerlega að halda mig utan við þessi orðaskipti hæstv. ráðherra og þess þingmanns Samfylkingarinnar til hvers hann vitnaði hér en ekki fundust mér … (AKG: Ef hann væri til að svara.) Hann hlýtur að geta komið hér og svarað fyrir sig en ekki fundust mér nú þessi tilvitnuðu ummæli heppileg um Fáskrúðsfjarðargöngin en það er önnur saga.

Auðvitað er veruleikinn sá að hægt er að rökræða og takast endalaust á um forgangsröðun í málaflokki af þessu tagi þar sem verkefnin eru nánast ótæmandi, fjármunirnir takmarkaðir og auk þess ekki heppilegt að hafa uppi mjög miklar sveiflur í framkvæmdastigi af þessu tagi. Það leiðir mig til þess að rifja upp, svo ég skilji ekki við hæstv. ráðherra alveg í svona góðu skapi, að auðvitað er þetta hringl með framkvæmdir í vegamálum búið að vera stórskaðlegt á undanförnum árum. Ég ætla að vona að nú bregði til betri tíðar í þeim efnum, að samgöngumál og framkvæmdir í samgöngumálum verði ekki endalaust notuð eins og jójó og dregið sundur og saman eftir einhverjum pólitískum hagsmunum, sýndarmennskutilburðum til að takast á við þenslu í hagkerfinu og hagstjórn, sem er bara allt tómt rugl. Vegna þess að auðvitað skipta einhver hundruð milljóna, eða 1 eða 2 milljarðar til eða frá í almennum samgönguframkvæmdum sem dreifast á fjölda smærri og meðalstórra verktaka, engum sköpum í því borið saman við milljarðatuga og hundruð milljóna stóriðjufjárfestingarnar og þensluruglið sem vitleysan í húsnæðislánakerfinu og annað slíkt hefur leitt yfir okkur.

Þessu verður að linna. Það verður að komast aftur á stöðugleiki og áætlanir verða að halda, menn verða að taka sjálfa sig alvarlega og bera virðingu fyrir því sem þeir setja frá sér og fá samþykkt á Alþingi. Ég vil bara segja að ég ætla að vona að við þurfum aldrei aftur að upplifa annan eins hringlandahátt með framkvæmdastig og áætlanir á þessu sviði og við höfum mátt gera undanfarin ár.