133. löggjafarþing — 73. fundur,  19. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2010.

574. mál
[17:59]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég ætla að hnykkja hérna á nokkrum áhersluatriðum sem ég hef haldið fram, bæði í andsvörum við umræðuna um tillögu til þingsályktunar um samgönguáætlun fyrir næstu fjögur ár og eins þá lengri til ársins 2018 af því það er margt sem flæðir þarna á milli.

Fyrst vil ég benda á að við lestur þessarar áætlunar þá minnir það mjög á söguna eftir Sigurð Nordal um ferðina sem aldrei var farin. Nú leggur Sjálfstæðisflokkurinn fram í miklu riti nokkuð umfangsmikla áætlun í samgöngu- og vegamálum þar sem stór markmið koma fram og það má segja að þar eigi að gera allt fyrir alla.

Nú á að bæta upp fyrir sextán ára vonbrigðasögu í samgönguráðuneytinu. Nú koma öll stóru fyrirheitin fram. Nú á allt að gera. Vanrækslusyndirnar á að hreinsa upp núna með þessu plaggi, nokkrum dögum fyrir kosningar og þess vegna er fyrsta stóra spurningin sú, hversu trúverðugt er plaggið?

Þar er margt efnislega sem þarf að hafa orð á líka. Eitt af umdeildustu eða mest umræddu samgönguverkefnum næstu ára er tvöföldun á Suðurlandsvegi. Að því er virðist hefur náðst pólitísk sátt um að fara þá leið að vegurinn verði 2+2 en ekki 2+1. Ég óska eftir því að hæstv. samgönguráðherra svari því af hverju ekki segir skýrum orðum í áætluninni að vegurinn eigi að vera 2+2 og pólitískt vilyrði fengið fyrir því að ferlið fari í gang. Ég hef gagnrýnt þetta í umræðunni um lengri áætlun og ætla að endurtaka það hér.

Hér er lagt til að framkvæmdin öll verði í einkaframkvæmd, sérstök fjármögnun o.s.frv. En það segir ekkert um það skýrum orðum hvaða leið eigi að fara heldur þarf að túlka kostnaðartölur þannig að hér eigi að vera fjórfaldur vegur en ekki þrjár akreinar.

Gott og vel. Hæstv. ráðherra hefur fullyrt að vegurinn verði 2+2 og fjórar akreinar og þess vegna hlýtur það að vera skoðað í samgöngunefnd að það verði kveðið skýrt upp úr með það í áætluninni hvaða leið eigi að fara þannig að það verði ekki hægt að nota það sem einhvers konar skjól síðar, eftir einhvern niðurskurð eins og var hérna fyrir tveimur árum og fjórum árum, þegar áætlunin svo gengur ekki eftir.

Þá tel ég mikilvægt að umræðu um samgöngumál Vestmannaeyinga sem mikið hafa verið í deiglunni, verði lokið. Það liggur fyrir að á tíu árum hefur Vestmannaeyingum fækkað 1.000 manns, 100 á ári að meðaltali á þessum tíu árum Það er gífurlega hröð og neikvæð þróun og að sjálfsögðu stórsér á samfélaginu á eftir. Það sem skiptir mestu máli og er þverpólitísk samstaða um, bæði á sveitarstjórnarstigi og hér á Alþingi, er að fara í bráðar samgönguframkvæmdir sem koma samgöngumálum milli lands og Vestmannaeyja í varanlegt, ásættanlegt og nútímalegt horf.

Þar er fyrst og fremst rætt um tvo kosti að ræða. Það er annars vegar að byggja höfn í Bakkafjöru og hins vegar sú umræða sem lengi hefur átt sér stað en kannski aldrei verið tekin mjög alvarlega og snýr að jarðgöngum á milli lands og Eyja.

Það eru mjög öflugir aðilar í Vestmannaeyjum sem reka pólitíska baráttu fyrir því að það verði leitt til lykta. Ingi Sigurðsson, fyrrverandi bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, formaður Ægisdyra, hefur fjallað mjög ítarlega um málið. Og síðan frambjóðandi sjálfstæðismanna og fyrrverandi alþingismaður, Árni Johnsen, sem er í öðru sæti á lista sjálfstæðismanna í Suðurkjördæmi og talar þvert gegn stefnu hæstv. samgönguráðherra í málinu.

Þess vegna kalla ég eftir því að hæstv. fjármálaráðherra, leiðtogi sjálfstæðismanna í Suðurkjördæmi, taki þátt í þessari umræðu og segi hver sé hans skoðun. Hefur hann kannski þriðju leiðina, aðra en samgönguráðherra og Árna Johnsen? Árni Johnsen segir í grein í Morgunblaðinu, 15. febrúar, daginn sem við ræddum lengri áætlunina, með leyfi forseta:

„Það er óboðlegt að ljúka ekki rannsóknum á jarðgangadæminu og það er jafnóboðlegt að hunsa þá virtu innlendu og erlendu vísindamenn sem hafa lagt fram niðurstöður í skýrslu, …“

Það er mjög hávær krafa margra úti í Eyjum að það verði rannsakað til hlítar hvort þetta sé tæknilega mögulegt, pólitískt mögulegt og hvort fjárhagslega sé mögulegt að ráðast í gangagerð. Fyrr eigi ekki að leiða framtíð samgöngumálanna til lykta.

Ég hef kallað eftir skýrum viðhorfum hjá hæstv. ráðherra í þessa veru og spurt hvort samgönguáætlun næstu fjögurra ára sé dauðadómur yfir fyrirætlunum margra Vestmannaeyinga um jarðgöng á milli lands og Eyja með því að þar eigi ekki að skera úr um það með rannsóknum áður en ákvörðun verður tekin um hitt. Þetta hlýtur hæstv. samgönguráðherra að skýra við umræðuna.

Ég tek undir þá kröfu að það eigi að rannsaka til hlítar hvort þetta sé mögulegt. Það er talað um að það kosti á bilinu 40–80 millj. kr. að rannsaka þetta að fullu og öllu. Það hefur verið rætt um að einkaaðilar skuli koma að því o.s.frv. Ég held að það þurfi að tryggja fjármagn í rannsóknirnar þannig að málið sé leitt til lykta og síðan verði farið af fullum krafti í þá framkvæmd sem ofan á verður.

Þess vegna hef ég óskað eftir því að Sjálfstæðisflokkurinn gangi í takt og hafi skýra stefnu í þessu máli af því hann hefur það ekki samkvæmt umræðu síðustu daga þar sem einn helsti leiðtogi Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi, Árni Johnsen, hefur talað þvert gegn stefnu hæstv. samgönguráðherra og annarra sjálfstæðismanna í málinu.

Hitt sem ég vil nefna er að tíu ára gamalt kosningaloforð um Suðurstrandarveg hefur aldrei gengið eftir og veginum verið frestað aftur og aftur og það er dapurlegt, virðulegi forseti. Sá vegur var settur á áætlun á sínum tíma sem sérstök samgönguframkvæmd út af kjördæmabreytingum þegar Suðurkjördæmið mikla varð til. Síðan hefur veginum verið frestað aftur og aftur og það sem er búið núna eru innkeyrslur í Grindavík og Þorlákshöfn og allan veginn á milli vantar.

Nú er gert ráð fyrir því að honum verði lokið eftir fjögur ár héðan í frá. Það er að sjálfsögðu ekki boðlegt. Það er allt of lítill framkvæmdahraði. Auk þess má fullyrða að það kosti íslenska skattgreiðendur verulega fjármuni að vera alltaf að bjóða út einstaka stubba í veginum í staðinn fyrir að bjóða út alla framkvæmdina í einu og ljúka henni á tilteknu tímabili. Og allt það hálfkák og eilífu frestanir sem einkenna sögu Suðurstrandarvegar er einn sorglegasti minnisvarðinn um samgönguárin sextán hjá Sjálfstæðisflokknum. Það þarf að ljúka því verki.

Það er ekki boðlegt að Suðurstrandarvegur sé alltaf látinn mæta afgangi. Hann var settur inn á símapeningaáætlunina fyrir fjórum árum sem sérstök framkvæmd, þegar honum hafði verið lofað fjórum árum áður sem samgönguframkvæmd sem kæmi ekki við aðrar í kjördæminu, einungis út af kjördæmabreytingunum þá til að tengja svæðin tvö með einhverjum félagslegum hætti.

Þetta eru svona nokkur af stærstu verkefnunum sem ég vildi nefna og tengjast þessari áætlun. Miklu máli skiptir að hæstv. samgönguráðherra skýri og skerpi sýn sína í þessum málum sérstaklega, enda allt risastórar samgönguframkvæmdir.