133. löggjafarþing — 73. fundur,  19. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2010.

574. mál
[18:09]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel að við eigum að setja fjármagn í það að ljúka nauðsynlegum rannsóknum sem snerta jarðgöng milli lands og Eyja. Það getur vel verið að það komi út úr því að ekki sé tæknilega eða fjárhagslega hægt að ráðast í gangagerðina og þá erum við búin að ná sátt á meðal Eyjamanna sjálfra og annarra sem málið varðar að það verði farið í aðra framkvæmd sem er þá væntanlega höfn við Bakkafjöru. Þannig að ég tel því að við eigum að setja fjármagn í það til að ljúka þessu máli og koma í veg fyrir frekari deilur um það.

En hvað varðar Suðurstrandarveginn, að hann hafi aldrei verið fullfjármagnaður og honum verið frestað aftur og aftur, þá er saga þess vegar nokkuð sorgleg. Hann hefur verið svikinn mörgum sinnum og sér ekki enn þá fyrir endann á honum. Það var aldrei lagt þannig upp þegar hann var settur á áætlun upphaflega og lá kjördæmabreytingunni til grundvallar, að hann ætti að hafa áhrif á aðrar framkvæmdir.

Hæstv. samgönguráðherra og forustumaður ríkisstjórnar sagði úr þessum ræðustóli á þeim tíma að Suðurstrandarvegur væri sérstök samgönguframkvæmd sem hefði ekki áhrif á aðrar samgönguframkvæmdir í kjördæminu. Hann yrði ekki til þess að velja þyrfti á milli Suðurstrandarvegar og annarra áríðandi verkefna, eins og t.d. tvöföldun Reykjanesbrautar, núna tvöföldun Suðurlandsvegar, sem er að mínu mati eitt allra mikilvægasta vegaverkefni á landinu öllu núna, út af umferðarþunganum á þeim vegi og út af slysatíðni o.s.frv. Um það hefur náðst sátt og samstaða á síðustu missirum. Það er mikið fagnaðarefni.

En það stóð aldrei til þegar Suðurstrandarvegi var lofað, og væntingar íbúa í Grindavík, Þorlákshöfn og víða annars staðar keyrðar upp til himinhæða út af hinu nýja vegi, að hann yrði alltaf fórnarlamb annarra og meiri áríðandi framkvæmda. Því auðvitað liggur meira á út frá sjónarmiðum umferðaröryggis að klára jafnumferðarþungan veg og Suðurlandsveg frekar en Suðurstrandarveg.

En valið stóð aldrei þarna á milli. Það átti aldrei að forgangsraða honum fyrir aftan aðrar (Forseti hringir.) og mikilvægari framkvæmdir. Það er nefnilega staðreynd málsins.