133. löggjafarþing — 73. fundur,  19. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2010.

574. mál
[18:15]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Hér á örfáum mínútum ætla ég að gera grein fyrir nokkrum áhersluatriðum. Hæstv. samgönguráðherra kynnir þingi og þjóð tillögur til þingsályktunar um samgönguáætlun, annars vegar til skamms tíma og hins vegar til lengri tíma, þ.e. á árunum 2007–2010 og hins vegar fyrir árin 2007–2018. Ákaflega metnaðarfull áætlun, segir hæstv. ráðherra. Menn minnast þess að hið sama var uppi árið 2003 þegar talað var fyrir væntanlegum samgöngubótum. Þóttu mér athyglisverðar þær upplýsingar sem fram komu í máli hv. þm. Önnu Kristínar Gunnarsdóttur við þingumræðuna á fimmtudag þar sem hún sýndi okkur hvernig ráðherrar gerðust sérlega metnaðarfullir á kosningaári. Í þessari þingsályktunartillögu er vissulega að finna metnaðarfull verkefni en reynslan kennir okkur að kosningaloforðin hafa ekki alltaf staðist. Kosningaloforðin sem gefin voru fyrir kosningarnar 2003 rýrnuðu um heila 6 milljarða á því kjörtímabili sem í hönd fór, um upp undir 2 milljarða á ári að jafnaði ef ég man rétt.

Annars ræddi ég talsvert um áherslur okkar í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði þess efnis að líta bæri á samgöngumálin heildstætt. Við eigum ekki einvörðungu að einblína á vegi þegar um er að ræða að flytja fólk og varning landshluta á milli, að ekki sé minnst á þungavarning, heldur einnig á háloftin og sjóinn. Það er slæm þróun sem orðið hefur á Íslandi hvað það snertir að flutningar á þungavöru séu allir komnir af sjónum og upp á vegina. Við höfum talað fyrir því á undanförnum þingum að gert verði átak til að koma að nýju á reglulegum sjóflutningum. Menn hafa leitað ýmissa skýringa á því að sjóflutningar hafi lagst af og það kom fram í umræðunni um daginn að sjóflutningar hafi jafnvel reynst ódýrari, en flutningsaðilar hafi engu að síður valið annan kost og þá var bent á það á móti að menn horfðu til öryggis, reglubundinna siglinga og annarra slíkra þátta. Ég vek enn og aftur athygli á því að þingmenn úr öllum flokkum hafa tekið undir þau sjónarmið sem við höfum hamrað á í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði, um að átak verði gert til að efla strandsiglingar.

Annars hét ég hæstv. samgönguráðherra því að segja örfá orð um einkaframkvæmd í vegagerð, stytti mál mitt eins og hann man á fimmtudagskvöldið en hét því að segja örfá orð um þann þátt. Ég vek athygli á því að á vegum hæstv. ráðherra sjálfs var skipuð nefnd til að fara sérstaklega í saumana á einkaframkvæmdinni í vegamálum. Nefndin sem skilaði af sér í desember var síður en svo mótfallin því að skoða þann kost, en í niðurstöðum sem birtast með skýrslu nefndarinnar segir m.a., með leyfi forseta, á þessa leið:

„Með einkaframkvæmd, sem byggist á veggjöldum, má auka tekjur til vegamála. Einkaframkvæmd er að mati nefndarinnar álitleg leið í samgönguframkvæmdum, ef hún að núvirði er ódýrari kostur en eiginframkvæmd, ef hagkvæm leið til gjaldtöku er fyrir hendi“ o.s.frv.

Ef, það eru þessi stóru „ef“. Staðreyndin er sú að í skýrslum sem gerðar hafa verið erlendis og ég hef nokkuð kynnt mér hef ég ekki fundið dæmi um annað en að einkaframkvæmdin hafi reynst dýrari kostur fyrir skattborgarann en sú leið sem hefðbundið er að fara. Augljóst er að einkafyrirtæki sem tekur að sér einkaframkvæmd í vegagerð sem öðru ætlar að sjálfsögðu að hagnast á þeirri framkvæmd, taka arð út úr henni. Þar er komin augljós skýring fyrir því að einkaframkvæmdin er yfirleitt dýrari.

Sömu tónar eru slegnir í skýrslu Ríkisendurskoðunar frá því í fyrravor. Þar er einnig varað við því, a.m.k. sett fram varnaðarorð hvað þetta snertir, og þess vegna hef ég alltaf furðað mig á því hve ákafur hæstv. samgönguráðherra er í að opna faðm sinn fyrir þeim sem bjóða þessa lausn. Ég minni aftur á að hér er ég ekki að tala fyrir því að framkvæmdin verði unnin á vegum opinberra aðila að öllu leyti. Við vegagerð eru verkin boðin út og verktakafyrirtæki koma að framkvæmdinni. Í einkaframkvæmdinni er hins vegar fyrirtækið sem stendur að framkvæmdinni einnig skattheimtumaðurinn þó að við þekkjum líka hinn kostinn, svokölluð skuggagjöld. Þetta er einfaldlega afar varasöm leið.

Ég furðaði mig á því hve ákafur hæstv. ráðherra var í að taka í mót tilboði aðstandenda Norðurvegar ehf. Hæstv. ráðherra var eins og ástfanginn unglingur þegar tilboð þeirra kom fram, með opinn faðminn, hafði að vísu uppi varnaðarorð, sló ýmsa varnagla og benti á að þessi leið yrði að sjálfsögðu að fara í umhverfismat og að aðstandendur yrðu að hyggja að slíkum kostum. En það er augljóst hvert hugur hans stefnir.

Ég spyr hæstv. ráðherra hvort hann líti ekki á það sem sitt meginhlutverk að þjóna skattgreiðendum í þessu landi. Getur verið að honum finnist hann hafa (Forseti hringir.) einhverjar skyldur við fyrirtæki sem vilji hagnast á kostnað skattgreiðandans?