133. löggjafarþing — 73. fundur,  19. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2010.

574. mál
[18:26]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hæstv. samgönguráðherra líkar það vel að vera líkt við ástfanginn ungling þegar hann opnar faðm sinn fyrir einkaframkvæmdarmönnum á sviði vegamála. Ég hef meiri áhyggjur fyrir hönd skattgreiðandans vegna þess að það sem hér er um að ræða og það sem reyndar kom fram í skýrslunni sem ég vitnaði til er að menn hyggja að leiðum til að ná meira fjármagni inn í vegasamgöngur, ekki satt? Það er það sem þetta gengur út á. Hver kemur til með að greiða það? Það eru þeir sem fara um vegina. Það sem hæstv. samgönguráðherra leggur með öðrum orðum til er að álögur verði auknar á umferðina í landinu. Út á það ganga rannsóknarskýrslur sem unnar eru á hans vegum.

Nei, hæstv. ráðherra, þar sem þessi leið hefur verið farin, einkaframkvæmd í grunnþjónustunni og einnig í vegamálum — ég veit ekki hvort hæstv. ráðherra þekkir til einkaframkvæmdarinnar á Ermarsundi þegar grafið var undir það sund og breska og franska ríkisstjórnin komu aftur og ítrekað fram með stóraukið fjármagn inn í þá framkvæmd — hefur verið á það bent sem skýringu fyrir því að einkaframkvæmdin hefur reynst dýrari er að í fyrsta lagi er fjármagnið dýrara — fjármagnið er dýrara fyrir einkaaðilann — og í öðru lagi er einkaaðilinn að taka arð í eigin vasa upp úr vasa umferðarnotenda, ökuþóranna sem fara um vegina. Þetta er ástæðan fyrir því að einkaframkvæmd í vegamálum (Forseti hringir.) hefur reynst dýrari kostur en sú leið sem hefðbundið er að fara.