133. löggjafarþing — 73. fundur,  19. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2010.

574. mál
[18:28]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Um allar jarðir í Evrópu er mikill vilji til þess af hálfu stjórnvalda að ná fjármunum inn í uppbyggingu samgöngukerfisins, ekki bara frá skattgreiðendum heldur einnig frá öðrum fjárfestum og framkvæmdaraðilum sem vilja bæta samgöngukerfið. Ég held að það sé ekki svo langt á milli okkar hv. þingmanns í þeim efnum, við viljum báðir finna leiðir til að hraða uppbyggingunni og gera hana hagkvæma.

Einu sinni var það svoleiðis, virðulegur forseti, að það voru tómir ríkisstarfsmenn meira og minna sem byggðu vegi á Íslandi. Yfir sumartímann sópaðist að fólk með haka og skóflur og vagna og byggði vegi og fékk laun greidd beint frá ríkissjóði. Síðan þróaðist þetta þannig að í dag er það allt boðið út. Það er boðin út framkvæmd og það er boðin út hönnun að langmestu leyti, þó ekki öllu.

Núna vil ég leggja áherslu á einkaframkvæmd þannig að við stígum næsta skref, leitum leiða til þess að reka einhvern hluta af samgöngukerfinu eins og Spölur gerir núna á sem hagkvæmastan hátt, að við bjóðum út hönnunina, framkvæmdirnar og reksturinn á einhverjum tilteknum samgöngumannvirkjum í þeim tilgangi að skattgreiðendur þurfi að borga sem minnst. Ég vil stíga næsta skref sem er það að leita leiða til að fá eins ódýrt fjármagn og nokkur kostur er. Ég held því, virðulegur forseti, að þegar allt kemur til alls séum við á svipuðu róli, ég og hv. þm. Ögmundur Jónasson, við viljum finna leiðir til að byggja upp samgöngukerfið með eins hagkvæmum hætti og nokkur kostur er.

Ég tel t.d. að það væri mjög æskilegt (Forseti hringir.) að lífeyrissjóðirnir legðu til fjármagn (Forseti hringir.) til hagsbóta fyrir okkur í uppbyggingu samgöngukerfisins.