133. löggjafarþing — 73. fundur,  19. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2010.

574. mál
[19:42]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Vegna ræðu hv. þm. Ellerts B. Schrams vil ég setja fram nokkrar athugasemdir.

Í fyrsta lagi eru 20 milljarðar á áætluninni vegna Sundabrautar en það nær reyndar aftur fyrir fjögurra ára áætlunina vegna þess að við gerum ekki ráð fyrir því að framkvæmdir geti hafist við Sundabraut fyrr en eftir e.t.v. eitt og hálft ár eða tvö. Við gerum ráð fyrir því að þegar það liggur fyrir hvor leiðin verður valin, innri leiðin eða Sundagöng, munum við sjá fyrir endann á því. Fyrir þessi fjögur ár og þær mögulegu framkvæmdir sem gætu orðið á Sundabrautinni liggur það alveg fyrir að í það verkefni eru til fjármunir.

Hvað varðar Mýrargötuna gerum við ráð fyrir tiltekinni fjárhæð til framkvæmda við hana. Það verður væntanlega þannig að hún fari í stokk og samið verði um hlutdeild ríkisins í henni.

Hvað varðar Kringlumýrarbrautina liggur það náttúrlega fyrir að R-listinn frestaði öllum framkvæmdum þar með því að hafna mislægum gatnamótum. Það er því ekki á áætlun að fara fyrr í mislæg gatnamót þar því að fjárfest var fyrir háar fjárhæðir í ljósastýrðum gatnamótum. Það er skýringin á því að ekki er gert ráð fyrir að fara á næstu fjórum árum í meiri framkvæmdir við þá braut en raun ber vitni.

Hvað varðar samgöngumiðstöðina þá varð það samkomulag milli borgaryfirvalda, og þar á meðal R-listahópsins, að fara í samgöngumiðstöð. (Forseti hringir.) Ég get komið nánar að því í síðara andsvari mínu.