133. löggjafarþing — 73. fundur,  19. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2010.

574. mál
[19:45]
Hlusta

Ellert B. Schram (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Tíminn er svo takmarkaður, maður hefur ekki tíma til að spyrja og hvað þá að svara, og hef skilning á því ef maður þarf að kveðja sér hljóðs margoft. Ég hef upplýsingar um það, herra forseti, að þessi Mýrargötustokkur er alls ekki á dagskrá fyrr en 2011 eins og ég skil þessa áætlun, eins og hún liggur fyrir. Það er ekki í samræmi við þær áætlanir og óskir sem Reykjavíkurborg hefur sett fram.

Ég heyrði því miður ekki hvort hæstv. ráðherra var að tala um Miklubrautina eða Kringlumýrarbrautina. (Samgrh.: Kringlumýrarbrautina.) Þá ítreka ég þær athugasemdir mínar að ég sé að 10 milljarðar eru til ráðstöfunar vegna þessara miðlægu gatnamóta en allir eru sammála um að aðra 10 milljarða þurfi til að skapa þarna umferðarvæn gatnamót vegna tengibrauta og annarra samgangna sem liggja að þessum mikilvægu gatnamótum. Ég held að þetta sé því ekki fullnægjandi svar.