133. löggjafarþing — 73. fundur,  19. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2010.

574. mál
[19:57]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Fyrst um það sem hv. þingmaður spurðist fyrir um varðandi heilborun jarðganga en það hefur ekki verið skoðað eða verið á dagskrá. Við höfum litið svo á að eðlilegt væri að gera ráð fyrir að verktakarnir veldu sér leið til að bora og það hefur ekki verið talið hagkvæmt að nýta sér þessa heilborunartækni í þau jarðgöng og þá lengd á jarðgöngum sem við höfum verið að miða við.

Hvað varðar vegarlagningu yfir Grunnafjörð þá fer ekkert á milli mála að ég hef talið það æskilegt ef hægt væri að finna leið til að tengja saman Akranes- og Borgarnessvæðið, stytta þá leið mjög verulega, en skipulagsyfirvöld hafa ekki fallist á þá leið, aðalskipulag sveitarfélaganna, enn sem komið er af þeirri ástæðu að þarna sé um mjög viðkvæmt svæði að ræða út frá umhverfissjónarmiðum eins og fram kemur í umhverfismatsskýrslunni. Þess vegna er sú vegarlagning ekki inni sem verk en yrði að sjálfsögðu skoðuð umsvifalaust ef sveitarfélögin, skipulagsyfirvöld og umhverfisyfirvöld í landinu samþykktu þann kost. Það þarf að fara í umhverfismat með þetta.

Virðulegi forseti. Ég hef ekki tíma til að fara nánar ofan í önnur atriði en læt þetta duga í bili.