133. löggjafarþing — 73. fundur,  19. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2010.

574. mál
[20:02]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég og hæstv. ráðherra erum sammála að þetta eigi að vera aðalleiðin sem þarna er verið að tala um yfir Grunnafjörð. Hins vegar er ekki hægt að búa við það ef ekki er hægt að kalla fram umhverfismat til að bera leiðirnar sama og ég trúi ekki öðru en sá slagur vinnist með einhverju móti.

Mig langar til að víkja aðeins að því sem ég nefndi í ræðu minni, þ.e. að stjórnvöld íhugi á einhvern hátt að koma að því að hér verði til reiðu tækni sem felst í heilborun jarðganga. Fram hefur komið að aðilar sem vildu fara af stað með slíka tækni voru tilbúnir til að leggja í jarðgangagerð á Austfjörðum en til að það væri hagkvæmt töldu menn að fara þyrfti í a.m.k. tvenn eða þrenn jarðgöng vegna þess að það væri ekki hægt að fara af stað með svo dýr tæki öðruvísi en verkefni væru til staðar. Ég held að það hljóti að vera hægt að finna leið til að skoða slíka tækni, ef hún hentar, nú er ég ekki að fullyrða það. En mér finnst ástæða til að menn skoði málið með það fyrir augum að nýta slíka tækni ef hún getur komið að gagni við þá jarðgangagerð sem fram undan er. Mér sýnist að mögulegt eigi að vera að búa til einhvers konar félag, og ríkið gæti þá komið að á einhvern hátt til að tryggja fjármögnun þess, sem gæti þá leigt þennan bor til þeirra aðila sem vildu fara í slíkar framkvæmdir þegar þær yrðu boðnar út. Mér finnst vera ástæða til að skoða þetta og það er þá a.m.k. þeirrar messu virði að sjá hvort þetta getur gengið upp, því greinilegt er að jarðgöng með þessum hætti eru miklu ódýrari en með þeirri tækni sem er yfirleitt notuð.