133. löggjafarþing — 73. fundur,  19. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2010.

574. mál
[20:13]
Hlusta

Ólafur Níels Eiríksson (F):

Virðulegi forseti. Þessi samgönguáætlun er fyrir margra hluta sakir mjög góð. En að mínu mati verður Alþingi að horfa lengra fram í tímann. Alþingi verður að vera meira afgerandi og koma með skýrari framtíðarsýn, til þess erum við kjörin hingað og það er það sem kjósendur ætlast til af okkur. Fyrir margra hluta sakir verður jarðgangagerð stærri og stærri hluti vegakerfisins í framtíðinni. Í hlutarins eðli eru jarðgöng sennilega öruggasti hluti vegakerfisins. Þau eru alltaf þurr, þar snjóar ekki o.s.frv. Jarðgöng eru líka umhverfisvæn þar sem þau stytta gífurlega vegalengdir og þau eru líka náttúruvæn þar sem þau breyta umhverfinu minna en vegir.

Á næstu tíu árum eru aðeins fimm jarðgöng á áætlun og þar af er byrjað á Héðinsfjarðargöngum og Óshlíðargöng eru tilbúin til útboðs. Það sem ég vil að verði gert er að taka ákvörðun um jarðgangagerð til næstu 15–20 ára og bjóða þau út í einum pakka. Sem dæmi jarðgangagerðin sem verður að koma í Norðausturkjördæmi: Lónsheiði, undir Berufjörð milli Breiðdalsvíkur og Stöðvarfjarðar, milli Stöðvarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar, milli Eskifjarðar og Norðfjarðar, milli Norðfjarðar og Mjóafjarðar, milli Mjóafjarðar og Seyðisfjarðar, milli Reyðarfjarðar, Eskifjarðar og Héraðs, milli Héraðs og Vopnafjarðar og Vaðlaheiðargöng. Með þessu geta verktakar keypt nýjustu og bestu tæki sem völ er á hverju sinni í heiminum. Tæknin og ekki síður reynslan munu flytjast milli ganganna þar sem sami verktaki væri með þau öll. Verktími er það langur að hann væri vel viðráðanlegur fyrir stærri íslensku verktakana. Með því er hægt að ná mun betri samningum við verksalana og landinn getur kortlagt framtíðina.

Það er ámælisvert að jarðgöng milli Neskaupstaðar og Eskifjarðar séu ekki tilbúin til útboðs. Þar þarf að byrja ekki seinna en á morgun. Ég þekki persónulega breytingu við að fá jarðgöng því ég bý á Fáskrúðsfirði og var vitni að því hvers konar samgöngubót það var þegar Fáskrúðsfjarðargöng voru tekin í notkun. Okkur fannst heimurinn skreppa saman, svo einfalt var það.

Næststærsta höfn landsins verður í Fjarðabyggð og ekki síst þess vegna er nauðsynlegt að bæta samgöngur eins hratt og mögulegt er til að nýta betur þá kosti sem þessi nýja höfn mun gefa. Ein af forsendum af góðri útkomu með sameiningu fjarðanna á Miðausturlandi í eitt sveitarfélag eru greiðar samgöngur og það er líka forsenda fyrir því að svæðið verði eitt þjónustu- og atvinnusvæði. Með því að ráðast í slíkt útboð eins og hér er lýst væri auðvelt að gera mestallt Austurland að einu sveitarfélagi. Alþingi ætti að sjá sóma sinn í því að taka vel undir þetta því þetta var eina sameiningin sem var samþykkt á síðustu tilraun til fækkunar sveitarfélögum.

Ég legg áherslu á að Alþingi samþykki að leggja til peninga til rannsókna á þessu sem og öðrum hugsanlegum jarðgöngum nú þegar. Vægt er til orða tekið að ömurlegt er að hlusta á deilur um jarðgöng milli lands og Eyja meðan enginn veit hvort hægt er að bora þar á milli. Við verðum að einbeita okkur að þeirri vinnu til að Eyjamenn, þingmenn og aðrir landsmenn fái vitneskju um hvaða kostir eru í framtíðinni fyrir samgöngur milli lands og Eyja. Það er óþolandi að menn eyði tíma og orku í þras um hvað eigi að gera meðan ekki liggja fyrir nauðsynlegar upplýsingar um hvaða kostir eru færir og það stendur upp á Alþingi í dag. Eins finnst mér leiðinleg umræða hjá sumum þingmönnum að líkja Fáskrúðsfjarðargöngum við yfirbyggða kappakstursbraut. Þeir ættu að líta sér nær, ég sé dæmi nánast í hverri viku sem menn eru teknir fyrir ofsaakstur á Stór-Reykjavíkursvæðinu. Það var síðast um helgina sem lögreglan á Reykjavíkursvæðinu var í eltingaleik við einhverja kappakstursmenn. Það þarf ekki jarðgöng til. Í leikskóla væri svona umræða bull. Til gamans má geta að mesti hraði sem lögregla hefur radarmælt í Fáskrúðsfjarðargöngum er 124 km hraði. 124 km hraði mundi ekki þykja fréttnæmt á Stór-Reykjavíkursvæðinu.