133. löggjafarþing — 73. fundur,  19. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2010.

574. mál
[20:43]
Hlusta

Guðmundur Hallvarðsson (S):

Virðulegi forseti. Hér hafa verið góðar umræður um þetta mál sem er vissulega þess eðlis að menn láti til sín taka og í sér heyra og skiptist afstaða manna nokkuð eftir því til hvaða byggðarlags þeir telja sig. Er ekki óeðlilegt að mönnum sýnist sitt hvað um þessa samgönguáætlun.

Ég verð þó að segja vegna orða síðasta ræðumanns að þingmenn Reykjavíkur eru auðvitað hver með sitt sjónarmið líka. Af því að hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson taldi sig sem þingmann Reykjavíkur þurfa að koma því sérstaklega að að hann væri andvígur uppbyggingu samgöngumiðstöðvar við Reykjavíkurflugvöll er ég algjörlega á öndverðum meiði við hann. Ég tel að einn af styrkleikum höfuðborgar séu góðar samgöngur á sjó, landi og í lofti.

Það eru ekki mörg ár síðan Lundúnabúar töldu ástæðu til að byggja upp öflugan innanlandsflugvöll í miðri borg, töldu að það yrði styrkleiki fyrir borgina að bæta samgöngur svo um munaði. Við höfum líka öll orðið vör við það í Reykjavík að umferð hefur nokkuð aukist um Reykjavíkurflugvöll vegna flugvéla sem koma að og fara frá landinu, litlar einkaþotur. Hins vegar hefur snertilendingum og lendingum vegna kennslu fækkað verulega. Við höfum horft til þess að Reykjavíkurflugvöllur hefur skaffað um 1.200–1.400 mönnum atvinnu, það eru bæði störf á flugvellinum og afleidd störf í kringum þá þjónustu sem þar er veitt. Við höfum líka orðið vör við það að peningaleg velta í kringum Reykjavíkurflugvöll er á bilinu 12–14 milljarðar á ári, og hvaða aðili sem stýrir höfuðborg Íslands mundi virkilega leggja sig fram um að kasta þessum atvinnutækifærum og fjármunum á glæ?

Er hún rétt, sú hugsun þessara manna sem segja: Ja, eitt dýrasta byggingarland á höfuðborgarsvæðinu er Vatnsmýrin? Er þá litið til allra átta, sem eðlilegt er þegar horft er til samgöngumála og við sjáum fyrir okkur það umferðaröngþveiti sem þegar hefur skapast í hjarta borgarinnar og ef það ætti að fara að byggja upp 15 eða 20 þús. manna byggð í Vatnsmýrinni og flugvöllurinn færi? Ég sé það ekki fyrir mér og m.a. vegna þess sem ég hef hér talið upp eru annmarkar á því að leggja Reykjavíkurflugvöll niður. Síðast en ekki síst, eins og ég gat um, megum við ekki gleyma einum stærsta tilgangi höfuðborgar ef við viljum að hún beri það nafn með rentu, að hún á að þjóna landsmönnum öllum. Það er eðlilegt að til þeirrar áttar sé litið og við megum ekki og getum ekki, þingmenn Reykjavíkur, litið svo á að Reykjavík sé sérstakt og afmarkað svæði sem ekki eigi að líta til annarra átta en bara innan marka Reykjavíkur. Það skiptir okkur verulegu máli að vera í góðum og skipulögðum samgöngum við hina dreifðu byggð og þess vegna er eðlilegt að flugvöllurinn verði áfram í Vatnsmýrinni.

Ég minnist þess að fyrir nokkuð mörgum árum átti ég í miklu orðaskaki við fyrrverandi samgönguráðherra vegna ástands Reykjavíkurflugvallar, lendingarljósa, mikils vatnsaga á vellinum og þeirrar lagfæringar sem auðvitað var nauðsynlegt að gera á Reykjavíkurflugvelli til að hann stæðist kröfur varðandi öryggismál. Var jafnvel orðið hættulegra í miklu vatnsveðri fyrir flugvélar að taka á loft en að lenda og lendingarljósin voru orðin úrelt og gömul. Sem betur fer tóku fleiri þingmenn Reykjavíkur til máls í þeirri orrahríð allri og það varð úr sem betur fer að gert var stórátak í lagfæringu Reykjavíkurflugvallar. Hitt er svo aftur dálítið merkilegt þegar menn fara að ræða um flugstöðina þegar núna loksins á að fara að losna undan húsnæði — eigum við að kalla það samgöngumiðstöð sem var og er á Reykjavíkurflugvelli? — gömlum bröggum frá seinni heimsstyrjöldinni sem hefur verið lappað upp á á sama tíma og búið er að byggja og gera það vel fyrir flugstöðvar annars staðar og jafnvel svo vel að sumar þeirra standa auðar og ónotaðar. Allt um það, við sjáum þó fram undan bót á aðstöðu fyrir flugfarþega og líka þann möguleika að geta enn skilið meira í sundur þá farþega sem fara t.d. í ferðir til Grænlands eða að millilandaflugið verði aðskilið eins og kröfur eru uppi um í dag af öryggisástæðum.

Ég andmæli því að verið sé að festa flugvöllinn í sessi bakdyramegin eins og hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson kom inn á, það er rangt. Þetta liggur svo opið fyrir og ljóst að það þarf ekki að sækja í nein bakherbergi hvað hér er verið að gera. Eins og ég sagði áðan tel ég sem þingmaður Reykvíkinga að okkur beri fyrst og fremst að þjóna allri landsbyggðinni. Reykjavíkurflugvöllur er vel staðsettur þar sem hann er og þegar til framtíðar verður litið mun hann verða mjög aðlægur umferðinni og valda því að flug verður áfram mikilvægt fyrir okkur í samgöngumálum hér á landi. Ef eitthvað er er ég sannfærður um að flug mun enn frekar ýta undir að fleiri farþegar muni nota sér þá þjónustu sem í boði er hér varðandi samgöngumál á Íslandi.