133. löggjafarþing — 73. fundur,  19. feb. 2007.

veitingastaðir, gististaðir og skemmtanahald.

588. mál
[21:06]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að verið sé að mæla fyrir ákaflega þörfu máli varðandi einföldun á leyfisveitingum og öðru slíku. Ég vil hins vegar spyrja hæstv. samgönguráðherra. Túlkanir á svokölluðum leyfum varðandi útihátíðir og framkvæmd á þeim hafa löngum verið mismunandi. Það hefur að sumu leyti snúið að sýslumannsembættum og lögregluembættum að því er varðar kostnað, en það hefur oft verið skilyrt í leyfum að menn sæju fyrir ákveðinni gæslu. Leyfishafar útihátíða sæju fyrir ákveðinni gæslu og greiddu hana o.s.frv. Ég veit að hæstv. samgönguráðherra kannast við þessa umræðu úr kjördæmi sínu þar sem menn hafa verið að gagnrýna hvaða álögur væru settar á þá sem vildu halda útihátíðir úti á landi annars vegar og hins vegar hafa menn vitnað til útihátíða hér í Reykjavík að því varðar leyfi og kostnað o.s.frv. Ég heyrði ekki, eða tók þá ekki eftir því, að hæstv. ráðherra viki að því með einhverjum hætti. Ég geri mér grein fyrir því að hluti þess máls tengist dómsmálum og dómsmálaráðuneyti og kostnaði við lögreglueftirlit. En þetta hefur samt verið tengt við veitinga- og skemmtanaleyfin úti á landi eins og ég veit að hæstv. ráðherra veit.