133. löggjafarþing — 73. fundur,  19. feb. 2007.

breyting á IX. viðauka við EES-samninginn.

573. mál
[21:23]
Hlusta

utanríkisráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Með þessari þingsályktunartillögu er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 59/2006, um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn, og fella inn í samninginn tilskipun nr. 2005/68/EB um endurtryggingar.

Eins og með fyrri ákvarðanir er gerð grein fyrir efni ákvörðunarinnar í tillögunni og er ákvörðunin prentuð sem fylgiskjal með tillögunni ásamt þeirri tilskipun sem hér um ræðir.

Tilskipun 2005/68/EB gildir um sjálfstæðan rekstur endurtrygginga af hálfu endurtryggingafélaga sem stunda eingöngu endurtryggingastarfsemi og sem staðsett eru innan Evrópusambandsins. Eftir upptöku gerðarinnar í EES-samninginn munu reglurnar gilda á öllu Evrópska efnahagssvæðinu. Tilskipunin gildir ekki um vátryggingafélög og ekki um endurtryggingar sem eru með ríkisábyrgð.

Í tilskipuninni er mælt fyrir um hvaða skilyrði þurfi að uppfylla til að geta hafið rekstur endurtryggingafélags en þau lúta einkum að öflun starfsleyfis frá viðeigandi eftirlitsaðila sem hér á landi verður Fjármálaeftirlitið. Fáist starfsleyfi skal það gilda á öllu efnahagssvæðinu. Um þrenns konar starfsleyfi getur verið að ræða, þ.e. leyfi sem nær til skaðaendurtrygginga, lífendurtrygginga eða hvers konar endurtrygginga.

Meginákvæði tilskipunarinnar fjalla um skilyrði reksturs endurtryggingafélags en þau er að finna í fjórum aðgreindum köflum og er sagt frá efni hvers þeirra í tillögunni sjálfri. Kaflarnir fjalla um meginreglur og umfang eftirlits með endurtryggingastarfsemi, reglur um vátryggingaskuld sem og um gjaldþolsviðmið og ábyrgðarsjóð og loks um afturköllun starfsleyfis.

Þá geymir tilskipunin fyrirmæli varðandi a) takmarkaðar endurtryggingar, b) stofnsetningarrétt og þjónustufrelsi, c) endurtryggingafélög með höfuðstöðvar utan Evrópusambandsins en starfsemi innan þess og d) dótturfélög móðurfélaga sem lög þriðja ríkis gilda um.

Unnið er að innleiðingu tilskipunarinnar í viðskiptaráðuneytinu og er gert ráð fyrir að frumvarp þess efnis verði lagt fyrir Alþingi á næsta þingi. Ekki er fyrirséð að þær breytingar sem tilskipunin kallar á verði viðamiklar enda er markmið tilskipunarinnar að færa reglur um rekstur endurtryggingafélaga til samræmis við gildandi reglur um rekstur frumtrygginga.

Ég legg til, hæstv. forseti, að að lokinni þessari umræðu verði tillögunni vísað til síðari umræðu og hv. utanríkismálanefndar.