133. löggjafarþing — 73. fundur,  19. feb. 2007.

málefni aldraðra.

559. mál
[22:02]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það fé sem hefur farið úr Framkvæmdasjóði aldraðra til reksturs rýma fer samkvæmt samkomulaginu sem var náð við Landssamband eldri borgara í tveimur þrepum allt yfir í uppbyggingu rýma. Það er alveg ljóst.

Varðandi biðina út af sveitarfélögunum þá er þessi bið í viku í viðbót. Ég velti því fyrir mér núna hvort það hefði átt að bíða, af því þetta varð löng bið. En af tillitssemi við sveitarfélögin, sem skipta auðvitað mjög miklu máli því ef þau vilja ekki taka málaflokkinn þá kemur ekkert út úr þessu nefndarstarfi. Ég taldi því rétt að bíða eftir að þau kæmu með sinn fulltrúa áður en nefndarstarfið hæfist.

Varðandi heimaþjónustuna þá hefur ríkið stóraukið framlög til heimaþjónustu. Stóraukið ár frá ári. En meiri hluti sveitarfélaga hefur dregið úr heimaþjónustu fyrir aldraða. Það er nú bara hinn kaldi raunveruleiki í þessu. Á meðan ríkið hefur verið að bæta við í þjónustunni, þá hafa sveitarfélögin, þ.e. meiri hluti þeirra, meiri en helmingur þeirra, dregið úr þjónustunni. Að vísu hafa sum aukið hana sem betur fer. Það væri rosalegt ef alls staðar hefði verið dregið úr þjónustu.

En mér finnst það samt grafalvarlegt að sveitarfélögin sem gegna svo miklu hlutverki í þjónustunni skuli vera að draga úr slíkri þjónustu. Þessi félagslega heimaþjónusta fyrir aldraða er yfirleitt fyrsta þjónusta sem fólk fær þegar því hrakar. Það er yfirleitt ekki þannig og á ekki að vera þannig að þá komi strax heimahjúkrun inn með fagaðila og hjúkrunarfræðinga. Það á fyrst að koma hin félagslega heimaþjónusta, nema menn séu þeim mun veikari. Þannig að það er grafalvarlegt að meiri hluti sveitarfélaga skuli vera að draga úr þessari þjónustu. Ég kalla það hneyksli.