133. löggjafarþing — 73. fundur,  19. feb. 2007.

málefni aldraðra.

559. mál
[22:13]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hæstv. heilbrigðisráðherra flutti athyglisverða ræðu um margt, og ágæta. Miklar vangaveltur um málefni aldraðra og framtíðarhugmyndir þar að lútandi. Ekkert nema gott um það að segja ef ekki væri fyrir þá sök að kjörtímabilið og valdatími Framsóknarflokksins er nær á enda runninn.

Ekkert upp á eldri borgara að klaga, segir hæstv. heilbrigðisráðherra og vísar þar í skipan í nefnd en hún bíður reyndar eftir tilnefningum frá þeim. Vandinn er sá að eldri borgurum finnst ýmislegt upp á ríkisstjórnina að klaga, þá ríkisstjórn sem hefur setið hér að völdum — þá er ég að vísa í samstarf Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks — síðan vorið 1995. Eftir því sem ég best veit hefur Framsóknarflokkurinn farið með heilbrigðisráðuneytið allan þann tíma.

Eldri borgarar og samtök eldri borgara eru mjög óánægð með framgöngu Framsóknarflokksins í heilbrigðismálum á þessum tíma. Það höfum við heyrt aftur og ítrekað. Og nú spyr ég hæstv. heilbrigðisráðherra: Er við hæfi á síðustu metrum kjörtímabilsins að skipa í nefndir sem eiga að hafa með framtíðarstefnumótun að gera? Ég hef vissulega verið fylgjandi slíkri stefnumótun og slíku nefndarstarfi, en (Forseti hringir.) hefði þetta ekki þurft að koma til fyrr, ella bíða byrjunar næsta kjörtímabils?