133. löggjafarþing — 73. fundur,  19. feb. 2007.

málefni aldraðra.

559. mál
[22:18]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Vegna þess nefndarstarfs sem er að fara í gang núna og hefst væntanlega strax eftir helgi, þá eru alla vega allar tilnefningar loksins komnar frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, þá tel ég að það nefndarstarf sem þá verður komið í gang muni nýtast hvort sem það verður sama ríkisstjórn eða sami ráðherra sem fer með málaflokkinn. Ég vildi gjarnan fara með þennan málaflokk áfram, þetta er geysilega spennandi málaflokkur. Ég tel að nefndarstarfið muni nýtast, það er oft þannig í nefndarstarfi að mjög mikil gagnaöflun fer fram í upphafi og ég hef því engar áhyggjur af þessu. Ég held að það sé gróði að byrja á þessu starfi og svo verða menn bara að sjá hvernig það þróast. Þetta er geysilega flókið verkefni, báðar nefndirnar standa frammi fyrir mjög flóknu verkefni þannig að það mun taka tíma. Ég held að ég geti fullyrt að engar tillögur verði á okkar borðum á næstu mánuðum, þetta er það flókið og stórt verkefni.