133. löggjafarþing — 73. fundur,  19. feb. 2007.

málefni aldraðra.

560. mál
[22:33]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þær rannsóknir sem hafa verið gerðar bæði í Hafnarfirði og í Reykjavík á biðlistunum sýna að bæði þegar hinn aldraði sjálfur og aðstandendur svara spurningunum kemur í ljós að það er nokkuð hátt hlutfall sem búið er að meta í þörf fyrir vistun og til dvalar á hjúkrunarheimili, eru komnir með vistunarmat, sem geta að eigin mati og mati aðstandenda sinna búið áfram heima við óbreyttar aðstæður og enn fleiri með auknum stuðningi þannig að þetta eru mjög sterkar vísbendingar um að biðlistarnir gefa villandi mynd. Hið sama blasir við þegar skoðað er að við hýsum hlutfallslega fleiri aldraða inni á stofnunum en nágrannaríki okkar.

Hvað segir það okkur? Það segir okkur að þessir biðlistar gefa villandi mynd. En ég er sammála því að heimaþjónustan er það sem á að fara í að skoða og ríkið hefur aldeilis staðið sig í að auka hana. Framlög til heimahjúkrunar frá heilsugæslustöðvunum hafa verið stóraukin. En ég hef miklar áhyggjur af sveitarfélögunum sem hafa annaðhvort staðið í stað eða hlutfallslega dregið úr þjónustu eins og Reykjavíkurborg og það er ekki lítið sveitarfélag. Það er yfirburða stærsta sveitarfélagið í landinu. 1999–2003 stóð tímafjöldinn í stað meðan öldruðum fjölgaði þannig að það segir manni bara að hlutfallslega er verið að draga úr þjónustunni og í þessum stóru sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu, eins og í Kópavogi, Garðabæ, Seltjarnarnesi, Reykjanesbæ og á Ísafirði, þar er verið að draga úr þjónustunni. Þetta segir mér að sveitarfélögin sérstaklega þurfa að bæta þjónustuna við aldraða heima og svo þegar við erum búin að byggja upp 374 rými þá erum við líklega búin að byggja upp nóg af rýmum.