133. löggjafarþing — 73. fundur,  19. feb. 2007.

málefni aldraðra.

560. mál
[22:38]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er ekki tilgangur frumvarpsins að spara en mér fannst eins og hv. þingmaður gæfi það í skyn. Það er ekki tilgangurinn. Tilgangurinn er að auka faglegt mat og samræma matið. Nú eru hóparnir 40 og það komu ábendingar frá Ríkisendurskoðun — það þurfti svo sem ekki þær til, því þetta hafa menn sagt líka í ráðuneytinu og þeir sem þekkja öldrunarþjónustuna best, að matið er mjög ósamræmt í dag. Það þarf að auka faglega aðkomu að því hvernig er metið og mér finnst það bara vera réttindi hinna öldruðu að fá faglegt og gott mat sem er samræmt á milli svæða. Það er tilgangur frumvarpsins.

Varðandi kostnaðarútreikninga fjármálaráðuneytisins þá geri ég ekki athugasemdir við þá útreikninga. Við gáfum þeim auðvitað ákveðnar upplýsingar sem við höfðum um hvað mötin kostuðu eða hvað menn töldu að mötin kostuðu og ferðakostnaður og annað slíkt, ég get ekki dregið þessa útreikninga fjármálaráðuneytisins í efa en mér finnst alveg eðlilegt að heilbrigðisnefndin skoði það og ef eitthvað er að kostnaðarmatinu þá þarf auðvitað að skoða það. En ég hef ekki forsendur til að draga það í efa á þessu stigi.