133. löggjafarþing — 74. fundur,  20. feb. 2007.

vísitala neysluverðs.

576. mál
[13:38]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum um vísitölu neysluverðs, nr. 12/1995, sem finna má á þingskjali 854.

Með frumvarpi þessu er lagt til að vísitala neysluverðs verði reiknuð miðað við verð um miðjan mánuð í stað verðs í upphafi mánaðar eins og verið hefur.

Hinn 25. apríl 2006 samþykkti ráð Evrópusambandsins reglugerð um að samræma tíma verðsöfnunar fyrir samræmda vísitölu neysluverðs sem tekur gildi 1. janúar 2008. Reglugerðin kveður á um að söfnun verðupplýsinga fyrir samræmdu vísitöluna skuli fara fram í a.m.k. vikutíma í miðjum hverjum mánuði og jafnframt að miða skuli við verðlag yfir lengra tímabil þegar um er að ræða vörur sem breytast mjög ört í verði. Er þá sérstaklega átt við eldsneyti, grænmeti og ávexti.

Hagstofa Íslands reiknar vísitölu neysluverðs samkvæmt lögum nr. 12/1995 miðað við verðlag tvo fyrstu virka daga hvers mánaðar. Útreikningur Hagstofunnar á samræmdu vísitölunni fyrir Ísland er miðaður við sama tímabil. Við gildistöku hinnar nýju reglugerðar ESB er nauðsynlegt að laga verðsöfnunartíma vísitölu neysluverðs að hinum nýju Evrópuákvæðum þar sem ekki kemur til álita hér á landi að reikna tvær mismunandi neysluverðsvísitölur í hverjum mánuði.

Breytingin á vísitölu neysluverðs sem hér er lagt til að verði lögfest krefst talsverðrar breytingar á verklagi og umsvifum við söfnun verðupplýsinga á Hagstofunni sem mun aukast þar sem hún nær yfir lengra tímabil en nú háttar og endurspeglar verðmælingin þá betur verðlag mánaðar en mæling í upphafi mánaðar gerir.

Margt mælir með því að vísitala neysluverðs miðist við verðlag um miðjan mánuð fremur en við upphaf mánaðar og að mælingin taki til heldur lengra tímabils en verið hefur. Mestu skiptir þó í þessu sambandi sú samræming á reglubundnum verðmælingum í aðildarríkjum Evrópska efnahagssvæðisins sem að er stefnt. Eins og nú háttar er viðmiðunartími vísitalna ríkjanna mjög misjafn. Sum ríki miða við verðlag í byrjun mánaðar, önnur við verðlag um miðjan mánuð og mismunandi er í hve langan tíma verðupplýsingum er safnað. Mörg undanfarin ár hefur verið unnið að samræmingu á vísitölum neysluverðs í EES-ríkjunum, hvað snertir þekju þeirra, skilgreiningar, flokkanir, aðferðir við gagnasöfnun og útreikning svo og gæði vísitalnanna og gæðaleiðréttingar. Þessi vinna hefur verið árangursrík og er nú svo komið að segja má að þær neysluverðsvísitölur ríkjanna, sem reiknaðar eru undir merkjum hinnar samræmdu neysluverðsvísitölu EES, séu að mestu samræmdar að öðru leyti en gildir um tíma verðsöfnunar og meðferð eigin húsnæðis í vísitölunum. Verðsöfnunartíminn verður nú samræmdur frá og með ársbyrjun 2008. Enn er unnið að samræmingu á meðferð eigin húsnæðis og er stefnt að því að þeirri vinnu ljúki á árinu 2007. Reiknað er með að eigið húsnæði verði tekið með í samræmdu vísitölunni á svipaðan hátt og það er reiknað í vísitölu neysluverðs hér á landi.

Að svo mæltu leyfi ég mér að leggja til, virðulegi forseti, að frumvarpi þessu verði vísað til 2. umr. og hv. allsherjarnefndar.