133. löggjafarþing — 74. fundur,  20. feb. 2007.

stofnun hlutafélags um Orkubú Vestfjarða og Rafmagnsveitur ríkisins.

570. mál
[14:04]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Menn gerast nú bæði skáldlegir og vitna út og suður. En það vissi enginn að þessar aðgerðir mundu ekki ganga upp. Það var ekki það sem ég sagði að menn hefðu sagt hér, heldur var ég að segja að það væri ekki auðvelt, það væri erfitt. Ég held að menn geti þá alveg horft á það hvernig að þessum málum var staðið. Þær nefndir sem um þetta fjölluðu, a.m.k. tvær, ef ég man rétt, og skýrslur sem frá þeim komu vitna um það að menn gerðu sér grein fyrir að þetta yrði erfitt.

Hvað varðar hins vegar brot á samkeppnislögum og þá félaga Friðrik og Brynjólf er rétt eins og fram hefur komið, að þeim varð greinilega á í því efni.

En ég vil gjarnan vitna til fyrrverandi þingflokksfélaga hv. þm. Ögmundar Jónassonar, án þess að ég vilji neitt sérstaklega núa mönnum það um nasir, en það veit ég að menn þar á bæ voru mjög jafnréttissinnaðir en lentu samt í því að vera úrskurðaðir brotlegir við jafnréttislögin.