133. löggjafarþing — 74. fundur,  20. feb. 2007.

stofnun hlutafélags um Orkubú Vestfjarða og Rafmagnsveitur ríkisins.

570. mál
[14:42]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég held að það sé mjög mikilvægt að stjórnmálamenn og stjórnmálaflokkar geri skýra grein fyrir stefnu sinni þegar kemur að framtíð grunnþátta samfélagsins, þátta á borð við raforkuframleiðsluna, heilbrigðiskerfi, skólakerfi og þar fram eftir götunum. Ef Framsóknarflokkurinn breytir um skoðun og stefnu varðandi einkavæðingu raforkugeirans er það hið besta mál. Ég yrði fyrstur manna til að fagna því. En Framsóknarflokkurinn verður náttúrlega að kannast við það sem hann hefur gert, bæði verður hann að kannast við eigin gjörðir og líka við orð sín.

Það er staðreynd að fyrrverandi iðnaðarráðherra landsins, Valgerður Sverrisdóttir, einn af forustumönnum Framsóknarflokksins, hefur lýst því yfir að hún telji líklegt og eðlilegt að Landsvirkjun verði gerð að hlutafélagi og seld. Þetta kom m.a. fram í fjölmiðlum í febrúarmánuði árið 2005. Í Kastljósi ríkissjónvarpsins, fimmtudaginn 17. febrúar, sagði ráðherrann að uppi væru áform, og nú vitna ég orðrétt, með leyfi forseta, ,,um að breyta þessu fyrirtæki sem verður til í hlutafélag, hugsanlega árið 2008. Þá erum við komin í gegnum Kárahnjúkauppbygginguna og eftir að fyrirtækið er orðið hlutafélag að þá er ekki ólíklegt og reyndar áform uppi um það að aðrir aðilar geti komið að fyrirtækinu. Þetta er náttúrlega gríðarlega verðmætt fyrirtæki, vonandi verður það ekki síður verðmætt á þessum tíma og það er engin sérstök ástæða til þess að ríkið haldi eitt utan um það.“

Tilvitnun lýkur í hæstv. fyrrverandi iðnaðarráðherra og forustumann Framsóknarflokksins, Valgerði Sverrisdóttur, í Kastljósi hinn 17. febrúar árið 2005. Þetta er alveg skýrt.

Morgunblaðið velktist ekkert í vafa um hvað hér væri átt við, enda segir í frétt Morgunblaðsins frá þessum tíma, með leyfi forseta:

„Lífeyrissjóðirnir kunna hugsanlega að verða framtíðareigendur sameinaðs fyrirtækis Landsvirkjunar, Orkubús Vestfjarða og Rafmagnsveitna ríkisins að sögn Valgerðar Sverrisdóttur viðskiptaráðherra. Viljayfirlýsing um að ríkið leysi til sín eignarhluta Reykjavíkur og Akureyrar var undirrituð í gær og mun ríkið eignast fyrirtækið að fullu um næstu áramót, takist að ná samkomulagi um verð hlutar sveitarfélaganna tveggja.

Áform eru uppi um að sameinuðu fyrirtæki verði breytt í hlutafélag eftir þrjú ár. „Á þeim tímapunkti verður að meta hvenær er rétt að opna fyrirtækið fyrir nýjum eigendum,“ segir Valgerður.““ — Ekki hvort, heldur hvenær það skuli gert. — „„Það er búið að móta þá stefnu að til þess muni koma. Það er ekki okkar framtíðarsýn að ríkið eitt muni eiga þetta fyrirtæki til framtíðar.“

Hún sagði ekki búið að móta hugmyndir um framtíðarsamsetningu hluthafa, „en því er ekki að leyna að t.d. lífeyrissjóðir hafa verið nefndir í því sambandi“.“

Er þetta ekki alveg skýrt? Það er verið að segja að ekki sé búið að taka endanlega ákvörðun um tímasetningu, hvenær fyrirtækið verði selt, en það leikur enginn vafi á því í huga ráðherrans og þessa forustumanns Framsóknarflokksins að það stendur til að selja Landsvirkjun ef Framsóknarflokkurinn verður við völd á árinu 2008. Hvenær skyldi árið 2008 renna upp? Er það ekki næsta ár? Jú, það er á næsta ári. Það er á næsta ári sem Framsóknarflokkurinn, ef hann fær til þess stuðning og kemst að nýju á valdastóla, mun beita sér fyrir einkavæðingu og sölu Landsvirkjunar. Þessi orð voru sögð. (Gripið fram í: Er ekki búið að taka þau til baka?) Er búið að taka þau til baka? Nei. Hæstv. ráðherra hefur aftur og ítrekað neitað að hún hafi látið þau falla. Þar er ég kominn að inngangi ræðu minnar, það er mikilvægt að stjórnmálamenn og stjórnmálaflokkar komi heiðarlega fram. Það hefur aftur og ítrekað gerst á undanförnum árum að fyrir kosningar hefur verið gefið til kynna að áform um t.d. einkavæðingu innan velferðarþjónustu (Gripið fram í: Ríkisútvarpið.) eða grunnþjónustunnar, t.d. Ríkisútvarpið — að ekki standi til að einkavæða þessar stofnanir. Síðan eru menn komnir á valdastólana og þá er þetta allt saman svikið. (Gripið fram í: Síminn.) Þetta eru staðreyndir og menn eru brenndir af þeim veruleika því að aftur og ítrekað hefur þetta gerst, menn hafa lofað einu en framkvæmt annað. Þetta er bara staðreynd. Ef Framsóknarflokkurinn er eindregið andvígur því að selja þessi fyrirtæki á hann að segja það. Þá fagna ég því ef það er stefnubreytingin. Ég er bara að vara við loddaraskap í þessum efnum. Við erum illa brennd, því miður, af Framsóknarflokknum í þessu efni. Nú síðast sveik hann Ríkisútvarpið og við erum búin að heyra alla hártogunina um hvernig túlka eigi samþykktir þinga Framsóknar hvað það snertir. Farið er þegar af stað með einkavæðingu raforkugeirans á Íslandi. Hver er reynslan af þeim skrefum sem þegar hafa verið stigin?

Í Morgunblaðinu frá því í sumar, 9. júlí, segir í fyrirsögn, með leyfi forseta:

„Fyrirtækjum stórlega mismunað.

Raforkulögin þjóna engan veginn tilgangi sínum segja Samtök iðnaðarins.“

Fyrr á því ári voru ítarlegar fréttir um þetta í Fréttablaðinu. Þar kom fram geysileg óánægja með einkavæðinguna eða þau skref sem þá höfðu verið stigin. Hinn 1. febrúar segir í fyrirsögn á forsíðu Fréttablaðsins, með leyfi forseta:

„Daggjald raforku hefur hækkað um 106%.“

Í undirfyrirsögn segir nánar:

„Daggjald heimila vegna raforkunotkunar hefur tvöfaldast á tveimur árum. Forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur segir raforkulögin orsaka hækkunina. Framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins segir flest fyrirtæki einnig greiða hærra verð og líkir ástandinu við samráð olíufélaganna.“

Í fréttinni segir síðan m.a., með leyfi forseta:

„Sveinn Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, segir að frá því að nýju raforkulögin tóku gildi sjáist dæmi þess að raforkuverð til fyrirtækja hafi hækkað um tuttugu til þrjátíu prósent. Flest fyrirtæki greiði hærra verð fyrir rafmagnið en áður.“ Síðan er þetta tíundað nánar.

Daginn eftir, fimmtudaginn 2. febrúar, vísa talsmenn orkufyrirtækjanna því á bug á forsíðu að um verðsamráð hafi verið að ræða. Hins vegar segja þeir það vera staðreynd að orkuveiturnar elti hver aðra í verði. Talsmennirnir segja að veiturnar beri allar meiri kostnað vegna raforkulaganna. Inni í blaðinu er síðan sláandi frásögn: „Frjáls raforkumarkaður leiðir til hærra verðs hjá fyrirtækjum og einstaklingum: Enginn hagur af raforkulögum.“

Síðan kemur hér frétt þar sem ég stikla á stóru, með leyfi forseta:

„Forstjórar Norðurorku, Hitaveitu Suðurnesja og Orkuveitu Reykjavíkur gagnrýna nýju raforkulögin en samkvæmt þeim er sala á raforku gefin frjáls. Orkuveiturnar bera allar hærri gjöld vegna breytinganna, Orkuveita Reykjavíkur þau hæstu eða 458 milljónir króna … Forstjóri Hitaveitu Suðurnesja, Júlíus Jónsson, … segir flutningskostnaðinn í raun skatt … Forstjóri Orkuveitu Húsavíkur, Hreinn Hjartarson, segir veituna þeirra greiða tvöfalt til þrefalt hærra verð fyrir tenginguna … Upphæðin sé ótrúlega há, um tólf milljónir í stað fimm … Franz Árnason, forstjóri Norðurorku, segir að hann sjái engan tilgang með nýju raforkulögunum. Hann þekki engan sem sé ánægður með lögin … Guðmundur Þóroddsson, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, tekur undir orð forstjóra Norðurorku og þekkir heldur engan sem sé ánægður með nýju raforkulögin. Hann og forstjóri Hitaveitu Suðurnesja vöruðu við breytingunum.“

Við vitum um stjórnmálamenn sem voru afskaplega ánægðir með lögin, t.d. hæstv. ráðherra Valgerði Sverrisdóttur. Hæstv. fjármálaráðherra, Árni Mathiesen, er yfir sig ánægður. Hann heldur áfram og stígur hvert skrefið á fætur öðru. Það skal haldið áfram og raforkukerfið í landinu skal markaðsvætt þrátt fyrir þetta. Þrátt fyrir að allir vari við því og telji það til óþurftar. Ég hef verið að viða að mér skýrslum sem hafa komið fram á vettvangi Evrópusambandsins og reyndar neytendasamtaka og verkalýðshreyfinga sem eru öll á sömu lund.

Í skýrslu Evrópusambandsins sem kemur út á hverju ári er gerð úttekt á þessum geira. Í þeirri skýrslu sem ég fór síðast í, 2005-skýrslunni, kemur fram að menn hafi miklar áhyggjur yfir því sem er að gerast. Menn vísa þar í verðhækkanir og samruna. Ekki alls fyrir löngu var úrskurðað, ég held að það hafi verið í Belgíu, hvort heimila ætti samruna tveggja stórra fyrirtækja. Það var heimilað en með ákveðnum skilyrðum þó. Í skýrslunni sem fylgdi voru uppi varnaðarorð um hvert stefndi. Reyndar segir frá því að gert sé ráð fyrir ábendingum frá Evrópusambandinu snemma á þessu ári um aðgerðir til að sporna við þessari þróun, þ.e. vaxandi fákeppni á þessu sviði.

Við höfum líka heyrt um hvað hefur gerst í Skandinavíu, innan Nord Pool sem er eins konar raforkumarkaður sem fjárfestingarfyrirtæki hafa komið inn í til að braska með hluti í raforkunni. Fjölþjóðlega fjármálafyrirtækið Morgan Stanley var sakað um að hafa beitt bellibrögðum á þessum markaði. Það er ekki svo ýkja langt síðan. Ég held að það hafi verið á síðasta ári. Bæði norska fjármálaeftirlitið og hið sænska gerðu athugasemdir við hvað þar væri að gerast. Morgan Stanley átti hlut að máli í Noregi en annað fyrirtæki mun hafa komið við sögu í Svíþjóð.

Hvað er að gerast í Svíþjóð? Hvað hefur gerst í Svíþjóð frá því að raforkan var einkavædd? Þar er eignarhaldið að færast á sífellt færri hendur. Allmörg fyrirtæki framleiddu og dreifðu raforku fyrir markaðsvæðingu raforkunnar í Svíþjóð. Þeim fer nú fækkandi. Þegar á árunum 2003–2004 voru þau orðin þrjú. Það var Vattenfall, það var enn í sænskri eigu. Síðan var það Sydkraft. Hverjir skyldu hafa átt Sydkraft? Það voru Þjóðverjar. Síðan er það Fortung. Hverjir skyldu hafa átt Fortung? Það voru Finnar. Með öðrum orðum, eignarhaldið var að færast til útlanda og fyrirtækjunum í þessum bransa fækkaði. Ýmislegt annað var að gerast, fyrirtækin voru hætt að fjárfesta að því marki sem áður hafði verið gert í þekkingu. Í stað þess að hafa fagmenn á öllum sviðum í þjónustu sinni er farið að bjóða út verkefni, sú er tilhneigingin, búta þau niður og bjóða þau út. Þetta telja menn hafa valdið því að þekkingin sé ekki til staðar innan fyrirtækjanna.

Enn eitt sem hefur gerst er að þau hafa ekki sýnt þá fyrirhyggju sem áður var að hafa varaaflsstöðvar til reiðu þegar raforkuskortur verður. Þá reka menn ekki Ljósafoss- eða Írafossstöð ef þeir geta sloppið við slíkt. Það er það sem gerist. Menn hugsa fyrst og fremst um leiðir til að hámarka arðinn í dag. Ekki á morgun eða hinn — heldur núna. Þetta er þróun sem hefur alls staðar átt sér stað. Hvað hefur þá gerst? Hvað hefur gerst á Norðurlöndum við orkuskort þegar ekki hefur verið upp á neitt að hlaupa? Þá er farið á rándýran raforkumarkað í Evrópu, keypt rándýrt rafmagn frá Þýskalandi og víðar.

Þessi er með öðrum orðum þróunin sem hefur orðið á evrópska raforkumarkaðnum á undanförnum árum. Þrátt fyrir öll varnaðarorðin er haldið áfram vegna þess að menn vilja ekki trúa öðru en að teorían sé rétt, teorían um frjálsan markað hljóti að vera rétt. En það er þessi vandi með kenningu og veruleika, teoríu og praxís, að ef um róttækar breytingar er að ræða getur verið erfitt að koma þeim í framkvæmd. Í sumum tilvikum reynist það hreinlega ógerlegt. Þá verða menn að draga réttan lærdóm af reynslunni. Menn verða að horfa opnum augum á hvað raunverulega gerðist í Evrópu eftir að menn fóru út á þá braut að markaðsvæða raforkugeirann. Það hefur ekki orðið til góðs.

Það sem mér finnst dapurlegt í þessu samhengi er að horfa upp á þá stefnubreytingu sem orðið hefur hjá Framsóknarflokknum á síðustu árum, ekki núna en á síðasta hálfum öðrum áratug hvað varðar afstöðu til samvinnu annars vegar og til markaðshyggju hins vegar. Flokkurinn hefur algerlega lagst á sveif með markaðshyggjunni. Hann trúir á blinda, (Gripið fram í: Nei.) grimma samkeppni. Hann hefur misst alla trú á því sem hann grundvallaðist á. Það var samvinnan. Það var talað um samvinnuhreyfinguna og það er með sameiginlegu samstilltu átaki sem Íslendingar hafa oft lyft grettistaki og þannig höfum við fetað okkur áfram.

Við erum talsmenn þess að finna góða, holla blöndu, blandað hagkerfi þar sem annars vegar er samfélagið, hvort sem það er á vegum ríkisins eða sveitarfélaga eða hugsanlega annarra aðila, og svo hinn frjálsi markaður. Við viljum veg hans sem mestan. Við viljum stuðla að fjölbreytni í atvinnulífinu en við segjum að grundvöllurinn, þjónustan sem öll fyrirtæki og heimilin í landinu eiga að geta reitt sig á, eigi að vera rekinn á vegum samfélagsins. Það er okkar stefna. Menn snúa hins vegar öllu þessu á haus vegna þess að sú ríkisstjórn sem nú situr, og það á við bæði um Sjálfstæðisflokk og Framsóknarflokk, einkavæðir grunninn en ræðst síðan í inngrip í atvinnulífinu sem aldrei fyrr. Er ég þá að sjálfsögðu að tala um stóriðjustefnuna. Þar er ríkið á fullu og rær öllum árum að því að koma erlendum auðhringum á jötuna, okkar sameiginlegu jötu. Það er vesælt hlutskipti fyrir Framsóknarflokkinn að hafa tekist það á hendur, ekki síst með hliðsjón af að mörgu leyti mjög glæsilegri sögu flokksins frá fyrri tíð. Menn verða að horfast í augu við eigin gjörðir og eigin orð. Ef uppi eru hins vegar áform um að gerbreyta um stefnu er ég fyrstur manna til að fagna því, en þá er hér komið kjörið tilefni í þessu þingmáli, í þessari þróun allri, til að setja stopp. Hættum nú og skrúfum til baka þessa óheillaþróun sem við erum komin inn á.