133. löggjafarþing — 74. fundur,  20. feb. 2007.

stofnun hlutafélags um Orkubú Vestfjarða og Rafmagnsveitur ríkisins.

570. mál
[15:02]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Í þessu frumvarpi kristallast afstaða stjórnarflokkanna, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, þar sem þeir taka skýra afstöðu gegn hagsmunum almennings og með sérhagsmunum. Ég get ekki verið sammála þeim hv. þingmanni sem talaði á undan mér, um að í þessu frumvarpi komi fram grímulaus árátta Framsóknarflokksins til samkeppnis- og markaðshugsunar vegna þess að í frumvarpinu kemur fram að ekki eigi að verða raunveruleg samkeppni á þessum markaði. Það er verið að hræra saman einokunarþáttum og samkeppnisþáttum. Það er mjög einkennilegt, sérstaklega í ljósi þess að þegar farið var af stað með breytingar á raforkukerfinu var það gert með því markmiði að koma ætti á samkeppni á þessum markaði.

Það má skipta raforkukerfinu upp í þrjá þætti, þ.e. framleiðsluna, sem mögulega er hægt að hafa samkeppni um, og síðan einokunarþættina, sem felast í flutningi og dreifingu rafmagnsins. Nú ætlar ríkisstjórnin að grauta þessu saman með því að færa dreifingarfyrirtækin inn í samkeppnisfyrirtækin, að vísu kemur fram í frumvarpinu að hér eigi að vera stjórnunarlegur aðskilnaður, þ.e. stjórnunarlegur aðskilnaður á milli þeirra þátta sem eru í samkeppni og einokun.

Stöldrum nú aðeins við þetta. Ég fór yfir það með forstjóra Samkeppniseftirlitsins hvort væri betra að það væri raunverulegur aðskilnaður, eignarhaldsaðskilnaður, á milli samkeppnisþáttanna, þ.e. framleiðslunnar og sölunnar, og einokunarþáttanna. Svarið var auðvitað að það væri miklu betra með samkeppnismarkmið að leiðarljósi að aðskilnaður væri á eignarhaldi en ekki einungis stjórnunarlegur aðskilnaður eins og ætlað er í þessu frumvarpi.

Sagan um markaðsvæðinguna er að mörgu leyti grátleg vegna þess að ég held að allur þorri almennings sé ekkert að velta því allt of mikið fyrir sér hver það er sem selur honum rafmagnið heldur hvað rafmagnið kostar. Þær breytingar sem innleiddar hafa verið á síðustu árum undir forustu Framsóknarflokksins hafa einungis valdið auknum kostnaði fyrir þann hluta raforkusölunnar sem er í samkeppnisumhverfi. Gleymum því ekki að það samkeppnisumhverfi sem um ræðir er að verða lítill hluti af allri orkuframleiðslunni eða 20%. Allur hinn þátturinn, 80%, er í föstum samningum þar sem þetta sýndarsamkeppnisumhverfi, sem verið er að innleiða með þessum gríðarlega ávinningi eða réttara sagt tjóni fyrir allan þorra almennings og sýnir sig í hækkuðu rafmagnsverði, er bara lítill hluti, einungis 20%, og um það snýst þetta samkeppnisumhverfi en allur stærri þátturinn í orkuframleiðslunni er í föstum samningum til stóriðjunnar.

Ef allt væri með felldu fengi þessi minni hluti að njóta þess að sífellt meira magn selst í föstum samningum, ef þeir væru hagstæðir, en svo virðist vera að sá þáttur sem er í 20% sem eftir eru í samkeppnisumhverfinu á næsta ári fari alltaf hækkandi. Það fást engar skýringar á því hjá ráðamönnum hvað þessi þáttur hafi hækkað mikið. Við í stjórnarandstöðunni vorum með þingsályktunartillögu þar sem því var beint til stjórnvalda að skýra það hvers vegna þær breytingar sem Framsóknarflokkurinn stóð fyrir hafi valdið svona mikilli hækkun. Það eru ekki einungis við í stjórnarandstöðunni sem höldum þessu fram, eins og kom hér fram hjá hæstv. iðnaðarráðherra að um einhvern misskilning sé að ræða eða eitthvað álíka. Það eru bakarameistarar landsins og Samtök iðnaðarins sem benda á að allt að 50% hækkun hafi orðið á raforkuverðinu eftir að þessar breytingar héldu innreið sína í þessum litla hluta af raforkuframleiðslunni, allt að 50%. Það kom líka fram hér að aðilar í ferðaþjónustu eru að sjá tugprósenta hækkun. Hér er því um mjög miklar hækkanir að ræða sem menn ættu miklu frekar að ræða heldur en að vera að hringla í eignarhaldi á orkufyrirtækjum þar sem í rauninni er verið að festa í sessi kerfi þar sem verið er að hræra einokunarþáttum saman við samkeppnisþætti, sem öll góð samkeppnislögmál segja að sé mjög óhagstætt. Samt sem áður er haldið áfram og maður skilur ekki hvers vegna. Hvers vegna er ekki reynt að svara því hvað rafmagnsverðið hefur hækkað mikið? Nei, menn forðast það í lengstu lög.

Það skiptir afar miklu máli að fá það upp hvað rafmagnsverðið hefur hækkað mikið. Ég vil minna á að í skýrslu sem fráfarandi iðnaðarráðherra, Valgerður Sverrisdóttir, kom með inn á þingið í fyrra kom fram að rafmagnsverð til almennra fyrirtækja í samkeppni, almennra iðnfyrirtækja, er hærra en í nágrannalöndunum. Það virðist því vera að almenn iðnfyrirtæki, hvort heldur það eru bakarí eða verkstæði, fyrirtæki sem nota mikið rafmagn, þurfi að greiða hærra verð en í nágrannalöndunum sem þau eru mögulega í samkeppni við. Það skýtur skökku við þegar við verðum síðan vitni að því að stóriðjan virðist hafa hagstæðari kjör. Það þarf að fara yfir þetta og þessi markaður þarf að vera gagnsærri en hann er.

Það er ýmislegt sem þarf að ræða í samhengi við þessi raforkumál. Ég vil minna á að það er ekki einungis að rafmagnsverðið hafi hækkað heldur hafa stjórnvöld að einhverju leyti reynt að lauma þessum hækkunum að og leyna þeim með því að flytja hluta af þeim yfir á skattgreiðendur. Þá á ég við það þegar verið er að hækka niðurgreiðslur til húshitunar til þess að neytendur verði ekki eins illþyrmilega varir við þessa hækkun. Eftir stendur að stjórnvöld skýri hve hækkunin hafi verið mikil í þeim hluta raforkukerfisins sem á að búa við samkeppni, þ.e. hjá þessum 20%. Hvers vegna nýtur almenningur í landinu ekki hagstæðari kjara? Það stendur upp á stjórnvöld að svara því. Það er í rauninni fátt sem útskýrir það hvers vegna stærri, öflugri og betri dreifinet ættu ekki að skila neytendum mun betri kjörum en raun ber vitni.

Þessar skipulagsbreytingar hafa ekki skilað neinu og það kom fram í andsvari hæstv. iðnaðarráðherra að hér væri um ákveðinn markaðsbrest að ræða vegna þess að Ísland væri eyja úti í hafi og þess vegna yrði kannski ekki um fullkomna samkeppni að ræða. Því er rétt að spyrja framsóknarmenn, sem halda áfram með þessar breytingar, hvers vegna þær eru þá með þeim hætti að verið sé að gera þetta svokallaða samkeppnisumhverfi ófullkomnara en þyrfti að vera. Hvers vegna er ekki reynt að greina betur en gert er í þessu frumvarpi á milli þeirra þátta sem eru í samkeppni og þeirra sem eru í einokun? Það er það sem upp á stendur. Við verðum að gæta að því að Landsvirkjun hefur yfirburðastöðu á markaðnum, ætli hún sé ekki nífalt stærri en þau fyrirtæki sem verið er að ganga inn í hvað varðar framleiðslu en hún hefur kannski ekki yfir dreifiþáttum að ráða í jafnríkum mæli og Rarik og Orkubú Vestfjarða. Þess vegna skilur maður ekki, ef það er í rauninni ætlunin að búa til eitthvert samkeppnisumhverfi, hvers vegna verið er að grauta saman á þennan hátt samkeppnis- og einokunarþáttum. Það er algjörlega af og frá og afhjúpar það að þessar breytingar á raforkumarkaðnum snúast ekki nokkurn skapaðan hlut um hag neytenda. Það kemur a.m.k. ekki fram í kjörum sem neytendum er boðið upp á og það kemur heldur ekki fram í því skipulagi sem verið er að innleiða hér þar sem verið er að grauta saman samkeppnis- og einokunarþáttum.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem við verðum vitni að því að framsóknarmenn hafi lítinn skilning á samkeppnismálum, við höfum m.a. orðið vitni að því í sambandi við Samkeppnisstofnun og hvað hún hefur verið fjársvelt. Það er ekkert stutt við bakið á henni til þess að hún geti sinnt hlutverki sínu. Eða Samkeppniseftirlitið réttara sagt núna því að Samkeppnisstofnun var lögð niður eins og menn muna í kjölfar þess að hún beitti sér í því að taka á samkeppnisbrotum þar sem var samráð. Það endurspeglast kannski í þessu frumvarpi að það á að koma upp einhvers konar einokun gegnra framsóknarmanna, gæti ég sem best trúað, sem er ætlað að fá þessar eigur fyrir lítið. Mér finnst hæstv. fjármálaráðherra skulda okkur betri svör um það hvers vegna verið er að grauta saman samkeppnisþáttum og einokunarþáttum. Að vísu kemur fram að það eigi að vera stjórnunarlegur aðskilnaður en það væri miklu nær að brjóta þetta enn frekar upp og tryggja það með einhverjum hætti, með einhverri sýn á framtíðina, að það yrði einhver samkeppni sem gæti lækkað verðið á raforkunni. Staðreyndirnar, sem koma m.a. fram í Bændablaðinu, í ályktunum Samtaka iðnaðarins og víðar, sýna að þessi för Framsóknarflokksins hefur einungis orðið almenningi og minni fyrirtækjum til tjóns, frú forseti.