133. löggjafarþing — 74. fundur,  20. feb. 2007.

stofnun hlutafélags um Orkubú Vestfjarða og Rafmagnsveitur ríkisins.

570. mál
[16:02]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Jón Sigurðsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég fullvissa hv. þingmann um að farið var yfir þau atriði sem hann nefndi. Það kæmi okkur því mjög á óvart ef þar kæmu aðfinnslur, en að sjálfsögðu vinna allar þessar stofnanir, bæði Samkeppniseftirlitið hér innan lands og stofnanir erlendis, sín verk án sérstakra fyrirmæla úr Stjórnarráði Íslands og bregðast ekki við fyrr en að gefnum hlut og atburðum sem hafa átt sér stað og ákvörðunum sem hafa verið teknar. Það veldur því að það er alltaf dálítið erfitt að ráða í hver niðurstaða kann þar að verða, en ég fullvissa hv. þingmann um það í samræmi við þau orð sem ég vísaði til áðan á 3. og 4. síðu í prentuðu eintaki frumvarpsins, athugasemdum við lagafrumvarpið, að þar er fyllilega farið í þá slóð sem mörkuð var af Samkeppniseftirlitinu til viðmiðunar.