133. löggjafarþing — 74. fundur,  20. feb. 2007.

stofnun hlutafélags um Orkubú Vestfjarða og Rafmagnsveitur ríkisins.

570. mál
[16:18]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég sé ekki að það sé eitthvert sérstakt vandamál þótt tvær umsagnir séu frá tengdum fyrirtækjum, eins og Rarik og Landsvirkjun, um rannsóknarleyfi. Ég held að það muni ekki leiða til einhverra sérstakra vandkvæða fyrir hæstv. iðnaðarráðherra þegar hann þarf að leysa úr þeim málum.

Svo verð ég að segja að ég kann því frekar illa að vera vændur um að vera ekki inni í málum. Ég held að hv. þingmaður svona almennt talað hafi ekki efni á því að væna mig um að vera ekki inni í þeim málum sem ég er að bera fram hérna. Ég held að betur fari á því að menn sleppi slíku í umræðum ef menn vilja hafa þær á einhverju skikkanlegu plani. Ef menn vilja hafa það einhvern veginn öðruvísi er sjálfsagt að taka þátt í því líka og þá mun ég ekkert láta hv. þingmann eiga neitt inni hjá mér hvað það varðar.