133. löggjafarþing — 74. fundur,  20. feb. 2007.

stofnun hlutafélags um Orkubú Vestfjarða og Rafmagnsveitur ríkisins.

570. mál
[16:19]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég get verið sammála hæstv. ráðherra hvað það varðar að halda eigi þessu á alvarlegu plani en það var hæstv. ráðherra sem byrjaði á að kasta þeim bolta upp og álasaði mér fyrir að velta mér upp úr málefnum sem lutu að virkjunum í jökulánum í Skagafirði. Það voru hans orð, „að velta sér upp úr því“. Ég kann ekki við það orðalag og tel það ekki hafa verið ráðherra til sóma, því það er stórmál, bæði í Skagafirði og á landsvísu, hvernig þessi áform um virkjanir í jökulánum í Skagafirði og aðild ríkisins í gegnum Landsvirkjun og Rarik er að þeim virkjunaráformum. Fyrir mér er það stórmál.

Ég skal alveg samt taka undir með hæstv. ráðherra að mjög mikilvægt er að þessi mál séu könnuð og komið á hreint og ég treysti því að ráðherra kanni það hvernig aðild ríkisins verður að þessum virkjunarmálum við þær breytingar að Rarik og Orkubú Vestfjarða verði eignarhluti í Landsvirkjun. Þessir aðilar hafa deilt um hvor þeirra ætti að fá virkjunarréttinn og rannsóknarleyfisréttinn og það er mjög eðlilegt að ráðherra kanni það. Ég get alveg fallist á að það fari í þann farveg og hann upplýsi mig og þingið um það eftir atvikum.