133. löggjafarþing — 74. fundur,  20. feb. 2007.

stofnun hlutafélags um Orkubú Vestfjarða og Rafmagnsveitur ríkisins.

570. mál
[16:21]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég hjó eftir því áðan við umræðuna að hæstv. fjármálaráðherra sagði að menn yrðu að hafa þolinmæði til að sjá hvernig þessi mál þróuðust. Það er nákvæmlega það sem við höfum verið að gera. Við höfum verið að fylgjast með því hvernig markaðsvæðing raforkunnar hefur þróast bæði hér á landi og erlendis. Við erum búin að lesa um það í fjölmiðlum og það hefur verið vitnað til þess í ræðustól Alþingis hvað Samtökum iðnaðarins, Neytendasamtökunum og fyrirtækjum á raforkumarkaði almennt finnst um þá þróun.

Ég vitnaði fyrr í dag í frétt í Morgunblaðinu frá því í sumar þar sem segir: „Raforkulögin þjóna engan veginn tilgangi sínum segja Samtök iðnaðarins.“ Ég vitnaði í ýmsa forsvarsmenn orkugeirans, þar á meðal Franz Árnason, forstjóra Norðurorku, þar sem hann sagði í viðtali við Fréttablaðið fyrir ári síðan, 2. febrúar, að hann þekkti engan sem væri ánægður með lögin. Ég vitnaði í þær miklu hækkanir sem hefðu orðið á raforkuprísum og ég hef vitnað til skýrslna sem hafa komið út á vegum Evrópusambandsins þar sem allt er á sömu lund. Raforkuverðið hefur farið hækkandi. En menn skella skollaeyrum við því og neita að hlusta á varnaðarorð sem eru uppi. Það eru til menn sem hafa viljað læra af reynslunni og draga af henni réttar ályktanir og stigið skref í þá átt að betrumbæta ráðið. Ég horfi á hv. þm. Kristin H. Gunnarsson sem sagði skilið við Framsóknarflokkinn, m.a. út af þessu, út af gagnrýni á þessar framkvæmdir ríkisvaldsins.

Frumvarpið sem við höfum hér fyrir okkur gengur út á að færa Orkubú Vestfjarða og Rafmagnsveitur ríkisins inn í Landsvirkjun. Þar með batnar eiginfjárstaða Landsvirkjunar, bókfært fé þessara fyrirtækja mun vera um 17 milljarðar kr., en að markaðsvirði er þessi upphæð talin miklu meiri og hærri. Þá er komið að hinni pólitísku spurningu sem menn eru að velta fyrir sér, eðlilega: Hverjar eru fyrirætlanir stjórnvalda varðandi Landsvirkjun, sem er að fá þau fyrirtæki undir sinn væng? Að sjálfsögðu hlusta menn á yfirlýsingar forsvarsmanna flokkanna um nákvæmlega þetta efni.

Fyrrverandi hæstv. iðnaðarráðherra, Valgerður Sverrisdóttir, einn af forustumönnum Framsóknarflokksins, hefur lýst því yfir skýrt og skorinort að í hennar huga sé það í kortunum að selja Landsvirkjun. Hún hefur reyndar reynt að hlaupa frá þeim ummælum sínum, en ég hef vitnað í þau orðrétt og er skilningur minn sá sami og fjölmiðlamanna sem hafa kafað í þessi mál. Ég las upp ummæli hæstv. ráðherra, fyrrverandi iðnaðarráðherra og talsmanns Framsóknarflokksins í orkumálum um langt skeið, þar sem hún segir að til standi eða hún reikni með því að Landsvirkjun kunni að verða sett á markað, að nýir eigendur kunni að koma að því á árinu 2008. Hún hefur haft á orði hið sama og hæstv. forsætisráðherra, Geir H. Haarde, að það kunni að vera heppilegt að lífeyrissjóðirnir komi að sem eigendur.

Ég hef um það miklar efasemdir. Hvers vegna? Vegna þess að lífeyrissjóðirnir haga sér nákvæmlega eins og hverjir aðrir fjárfestar. Fyrir það fyrsta er þeim gert samkvæmt landslögum að fjárfesta í atvinnurekstri sem gefur mestan arð hverju sinni að því tilskildu að fjárfestingin sé örugg. Þá vill það gerast eða mundi að öllum líkindum gerast sem hefur átt sér stað í erlendum orkufyrirtækjum sem hafa verið markaðsvædd, að lífeyrissjóðirnir sem aðrir fjárfesta hlaupa burt þegar hallar undan fæti. Þetta hefur gerst í Bretland og þetta hefur gerst í Frakklandi. Í Bretlandi var það svo að verðgildi hlutabréfa í British Energy, sem er eitt stærsta orkufyrirtæki Bretlands, sér Bretum fyrir fjórðungi orkunnar, hrundi um 91% á einu ári. Hvað gerist þá? Þá fara eigendurnir. Hverjir koma þá inn í staðinn? Það er ríkið og sveitarfélög.

Taka má fjölmörg önnur dæmi, Vivendi Universal í Frakklandi, þar var algert hrun. Hvers vegna? Vegna þess að Vivendi Universal var farið að fjárfesta í fjölmiðlum sem ekki báru sig. Það var orðið annað stærsta fjölmiðlafyrirtæki í heimi, þessi eigandi raforkunnar í Frakklandi eða stórs fyrirtækis þar. Þess vegna segi ég að hlutafélagsformið, þegar grunnþjónustan er annars vegar, er einfaldlega ekki heppilegt form. Þar þarf að búa þolinmæði að baki, þar þarf samfélagið sjálft að búa að baki, enda kemur það til skjalanna þegar á reynir, þá kemur samfélagið til skjalanna.

Þess vegna spyr ég, af því að við höfum allar þessar skýrslur frá Evrópusambandinu, nú síðast frá dönskum fræðimönnum, sem sýna fram á hve óhagstæð þróun þetta er fyrir neytendur, við erum að horfa upp á áframhaldandi samþjöppun á markaðnum: Hvernig stendur á því að íslensk stjórnvöld halda áfram út í það fen, hvernig stendur á því? Hvaða skýring er á því? Hvernig réttlætir Framsóknarflokkurinn slíka pólitík? Er ekki kominn tími til við þessa umræðu að heyra fulltrúa Framsóknarflokksins, ráðherra og þingmenn sem hér eru, reyna að skýra það út fyrir okkur hvernig á því standi að Framsóknarflokkurinn er fylgjandi markaðsvæðingu raforkukerfisins og það þótt við höfum upplýsingar sem streymi til okkar stríðum straumi um að þetta sé óhagstætt fyrir skattgreiðandann, fyrir raforkuneytandann? Hvers vegna í ósköpunum á að halda áfram út í slíkt fen?

Ég held að þessi umræða muni skila okkur einu. Hún mun skila kjósendum þeirri vitneskju og þeim til umhugsunar að ef flokkunum tveimur sem nú fara með stjórn landsins, Sjálfstæðisflokknum (Forseti hringir.) og Framsóknarflokknum, verður skilað aftur inn á þessa stóla, ráðherrastólana, (Forseti hringir.) verður raforkugeirinn horfinn okkur úr greipum innan nokkurra mánaða.