133. löggjafarþing — 74. fundur,  20. feb. 2007.

stofnun hlutafélags um Orkubú Vestfjarða og Rafmagnsveitur ríkisins.

570. mál
[16:31]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Það mál sem hér er til umræðu hefur áður komið til umfjöllunar í þingsölum og ég hef að nokkru leyti lýst skoðun minni til þess við þau tækifæri. Mér finnst eðlilegt að fara aðeins yfir málið að þessu sinni til að halda til haga þeim sjónarmiðum sem ég hef haft uppi í því, í raun og veru alla tíð frá því að gengið var frá því að markaðsvæða raforkukerfið.

Ég vil staldra fyrst við það ákvæði í frumvarpinu að fela fjármálaráðherra að fara með eignarhlut ríkisins í orkubúinu. Ég geri athugasemdir við það, ég er ósammála því og óska a.m.k. eftir frekari rökstuðningi fyrir þessu en fram hefur komið, því að sá rökstuðningur sem settur hefur verið fram svo ég hafi heyrt, hefur til þessa ekki dugað til að sannfæra mig um að gera skuli þessa breytingu. Hún er úr takti við aðrar breytingar af hálfu ríkisins, ríkið hefur verið að breyta stofnunum í hlutafélög og þjónustustarfsemi sem heyrir undir önnur ráðuneyti án þess að samhliða þeirri breytingu flytjist forsjá viðkomandi starfsemi frá fagráðherra til fjármálaráðherra. Það má nefna dæmi frá mörgum ráðuneytum þessu til sanninda. Það má nefna dæmi frá sjávarútvegsráðherra þar sem verið var að breyta ákveðinni stofnun í hlutafélag og eftir sem áður fer sá ráðherra með forsvar fyrir því máli. Það má nefna Flugstöð Leifs Eiríkssonar sem er hlutafélag en heyrir eftir sem áður undir utanríkisráðherra en ekki fjármálaráðherra. Það má nefna Flugstoðir ohf. sem heyra áfram undir samgönguráðherra og Ríkisútvarpið ohf. sem heyrir áfram undir menntamálaráðherra þó að það sé orðið hlutafélag.

Ég spyr: Hver eru rökin fyrir því að fjármálaráðherra eigi að fara með málefni fyrirtækis á raforkusviðinu sem heyrir undir iðnaðarráðherra? Ég hef ekki fengið nein skýr svör við því. Ég verð því einfaldlega að reyna að finna einhverjar skýringar sjálfur sem mér finnst trúverðugar og lýsi því sem menn ætli sér raunverulega að gera. Þær skýringar sem mér finnst líklegastar til að vera réttar í þessu máli eru þær að það eru staðföst áform ríkisstjórnarinnar að einkavæða Landsvirkjun. Það er stefna Sjálfstæðisflokksins að einkavæða Landsvirkjun eins og fram hefur komið í samþykktum flokksins og ræðum formanns flokksins. Því hefur líka verið lýst af hálfu fyrrverandi iðnaðarráðherra í stefnu sem ráðherrann gaf út fyrir hönd ráðuneytis síns fyrir tæpum tveimur árum og í ummælum ráðherrans þá og af þáverandi fjármálaráðherra sem er núverandi forsætisráðherra að næsta skref væri að breyta Landsvirkjun í hlutafélag og opna fyrirtækið fyrir utanaðkomandi fjárfestum og auðvitað er það fyrsta skref í einkavæðingu. Ég held að þetta sé stíf krafa Sjálfstæðisflokksins um að fá forsvar Landsvirkjunar yfir til sín, forsvar orkufyrirtækjanna yfir til sín til að geta unnið að einkavæðingu þeirra á næstunni. Ég hef ekki komið auga á neina aðra skynsamlega skýringu á þessari einkennilegu tillögu í frumvarpinu um að fjármálaráðherra eigi að fara með stjórn Orkubús Vestfjarða og Rariks. Hvað hefur fjármálaráðherra með það að gera að skipta sér af stjórnun fyrirtækis í raforkukerfinu? Ekki nokkurn skapaðan hlut, hann hefur ekkert með það að gera, á ekkert erindi við það og hann á að halda sér utan við það. Eina skynsamlega skýringin sem hægt er að finna er einfaldlega sú að fjármálaráðherra vill fá forsjá hlutabréfanna í sínar hendur til að geta stjórnað framvindunni, til að geta stjórnað einkavæðingunni.

Virðulegi forseti. Í öðru lagi er ég algjörlega andvígur því að ríkið setji þau þrjú fyrirtæki sem það á í orkugeiranum og eru í framleiðslu og sölu, undir eitt fyrirtæki. Ég er algjörlega andvígur því út frá samkeppnissjónarmiðum og það gengur gegn markmiðum þeirra laga sem sett voru í upphafi kjörtímabilsins um að koma á fót samkeppni í framleiðslu og sölu á raforku. Það er algjörlega út í hött við þær aðstæður þegar menn hafa markað sér þá stefnu sem út af fyrir sig er umdeild og við skulum segja að tvísýnt sé hvort hún skili árangri. Menn hafa a.m.k. markað þá stefnu að fara samkeppnisleiðina og þá er algjörlega út í hött að slá saman þremur fyrirtækjum á hendi ríkisins í þessari starfsemi, framleiðslu og sölu á raforku, og fara nánast með alla framleiðslu og sölu á því sviði. Það vinnur gegn þeim markmiðum að koma á samkeppni og er algjörlega fráleitt út frá því sjónarmiði. Það er líka fráleitt út frá öðru sjónarmiði, virðulegi forseti, sem er að þar með er búið að setja undir einn hatt öll þau réttindi sem ríkið er komið með til framleiðslu á raforku, öll réttindi til þess að nýta orkuauðlindir landsins sem ríkið hefur á hendi, bæði sem ríkið hefur nú þegar tangarhald á og þeim réttindum sem ríkið kann að afla sér með framgöngu sinni í þjóðlendumálinu. Það sem knýr auðvitað áfram herlið ríkisstjórnarinnar og fjármálaráðherra í þjóðlendumálinu er sú krafa að ná undan bændum réttindum, orkuréttindum landsmanna og koma þeim undir forræði ríkisstjórnarinnar og koma þeim þaðan til Landsvirkjunar sem síðan á að einkavæða. Það er hið stóra mál sem knýr áfram offors ríkisstjórnarinnar í þjóðlendumálinu.

Orkuréttindin eru verðmæt réttindi og munu verða verðmætari eftir því sem fram líða tímar. Við sjáum verðmætin nú þegar, bara í þeim dæmum sem liggja fyrir okkur eins og þeim samningi sem gerður var um litla virkjun í Fjarðará í Seyðisfirði. Það kom í ljós þegar sá samningur var birtur að sá aðli sem átti réttindin fær fyrir að leyfa þriðja aðila að nýta þau til að framleiða rafmagn 7,5% af brúttótekjum virkjunarinnar allan samningstímann og þegar tekið er tillit til þess að á fyrstu árum samningstímans er veittur afsláttur og á síðari hluta tímans fær rétthafinn 10% af brúttótekjum virkjunarinnar í sinn vasa og þetta er lítil virkjun. Landeigendur við jökulána sem er notuð til þess að framleiða raforkuna í Kárahnjúkum hafa gert kröfu um að réttindin verði metin þeim til eignar. Á hve mikið? Á 60 milljarða króna. Þeir gera kröfu til þess að fá 15% af brúttótekjum í sinn vasa sem gjald fyrir réttindin, sem afnotagjald fyrir réttindin, afnotagjald fyrir að nýta þessa auðlind. Þarna eru stórir peningar, virðulegi forseti. Þarna munu verða milljarðar og milljarðatugir árlega sem menn fá fyrir lítið, sem afnotagjald fyrir nýtingu á auðlind, og sem mun ekki renna til þjóðarinnar ef búið verður að einkavæða það fyrirtæki sem hefur þessi réttindi í sinni hendi, Landsvirkjun.

Það sem verið er að leggja til með þessu frumvarpi er að flytja öllu réttindi Orkubús Vestfjarða undir forsjá Landsvirkjunar, flytja öll réttindi Rafmagnsveitna ríkisins í forsjá Landsvirkjunar. Síðan á að breyta þessu í hlutafélag og síðan má hleypa nýjum aðilum inn án þess að þessi réttindi verði skilgreind sem þjóðareign vegna þess að hæstv. fjármálaráðherra og flokkur hans hefur fallið frá því að efna ákvæði stjórnarsáttmálans um að auðlindir þjóðarinnar verði þjóðareign. Hann hefur fallið frá því, þeir hafa sett fótinn fyrir það að efna ákvæði stjórnarsáttmálans um þjóðareign á auðlindum lands og sjávar. Það er ljóst til hvers refarnir eru skornir í þeim efnum, virðulegi forseti. Þeir vilja koma í veg fyrir að fiskimiðin verði skilgreind sem þjóðareign og þjóðin geti haft tekjur af þeim réttindum sem í dag eru greidd fyrir á hverju ári tugir milljarða króna, þeir vilja koma í veg fyrir að þjóðin hafi tekjur af réttindunum fyrir nýtingu vatnsauðlindanna sem munu þegar fram líða stundir nema milljörðum og tugum milljarða króna á ári. Um þetta snýst málið. Þetta er hið stóra pólitíska samhengi í þessu frumvarpi. Þess vegna segir valdamesti ráðherra Framsóknarflokksins, hæstv. utanríkisráðherra, að hann vilji að ríkisstjórnin haldi áfram vegna þess að ríkisstjórnin á ólokið þessu verki. Þess vegna stefna stjórnarflokkarnir að því að halda áfram. (Gripið fram í: Það er ekki víst að þeir ráði því.) Það er ekki víst að þeir ráði því, það er rétt, þjóðin á að ráða því í kosningum. Það er gott að þjóðinni sé ljóst hver viljinn er hjá þeim sem eru í núverandi ríkisstjórn og það er líka gott að þjóðin viti hvað hún ætlar sér að gera á næsta kjörtímabili. Það er þetta. Þetta er stóra pólitíska málið sem tekist verður á um á næsta kjörtímabili. Tekst hæstv. landbúnaðarráðherra að koma orkuauðlind þjóðarinnar í hendur einkaaðila? Um það verður tekist. (Landbrh.: Það stendur ekki til.) Sunnlendingar munu ekki fá arðinn af orkuauðlindum Þjórsár ef hæstv. landbúnaðarráðherra hefur sitt fram í þessu frumvarpi um einkavæðingu orkuauðlindanna, virðulegi forseti. (Forseti hringir.)

Þetta eru stóru línurnar, en ég hef reyndar frekari athugasemdir við málið og þær lúta meira að byggðasjónarmiðum. Í frumvarpinu kemur í ljós að verðið á orkunni frá Kárahnjúkum í orkusölusamningi Landsvirkjunar er of lágt. Landsvirkjun getur ekki reist Kárahnjúkavirkjun, lagt í það hundruð milljarða króna fjárfestingu, án þess að fá viðbótarframlag frá ríkinu. Eiginfjárstaða Landsvirkjunar fer of lágt niður vegna þess að framkvæmdin er svo stór, miðað við eiginfjárstöðu fyrirtækisins. Í stað þess að leggja framlag ríkisins inn í þessa framkvæmd úr ríkissjóði, eins og væri auðvitað eðlilegt, og skrá það sem byggðaframlag eða eitthvað slíkt, þá er eignarhlutur ríkisins í Orkubúinu og Rafmagnsveitum ríkisins færður inn í Landsvirkjun, það er eigendaframlag ríkisins, vegna þess að fyrirtækið fær ekki nógu háar tekjur fyrir söluna af raforkunni til að geta staðið undir skuldsetningunni á næstu árum, virðulegi forseti.

Þetta er sönnun þess að það er verið að selja raforkuna frá Kárahnjúkum á of lágu verði og öðrum er ætlað að borga mismuninn. Til dæmis er Vestfirðingum ætlað að borga þetta með því að taka eigið fé Orkubús Vestfjarða og flytja það inn í Landsvirkjun. Vestfirðingar hafa óskað eftir því að Orkubú Vestfjarða verði fyrirtæki sem geti sótt fram í atvinnumálum fjórðungsins. Sú tillaga hefur m.a. komið fram í skýrslum frá framsóknarmönnum í Norðvesturkjördæmi, í nefnd sem fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins skipaði á sínum tíma, og það eindregna álit framsóknarmanna um allt Norðvesturkjördæmi að sameina Rafmagnsveitur ríkisins við Orkubú Vestfjarða, búa til eitt fyrirtæki sem gæti haft öfluga eiginfjárstöðu og orðið drifkraftur í atvinnumálum viðkomandi kjördæmis.

Framsóknarflokkurinn gengur gegn þessum eindregnu tillögum og stefnu sinna eigin flokksmanna í Norðvesturkjördæmi í þessu frumvarpi, hafnar þeim öllum. Það virðist ekki vera nóg að fram komi upplýsingar um neikvæðan hagvöxt á Vestfjörðum og Norðurlandi vestra til þess að hreyfa við þeim eindregna ásetningi flokksins að ganga gegn sínum eigin flokksmönnum. Það virðist heldur ekki vera nóg að fyrirliggjandi upplýsingar eru um að íbúum á Vestfjörðum hefur fækkað um liðlega 20% á þeim 12 árum sem liðin eru síðan Framsóknarflokkurinn settist í ríkisstjórn. Fólki hefur aldrei fækkað jafnmikið í einum landsfjórðungi á svo stuttum tíma, virðulegi forseti. Það liggja fyrir eindregnar óskir manna heima í héraði um hvernig ríkið eigi að nota þau fyrirtæki sem það hefur undir höndum til að styrkja viðkomandi kjördæmi og það er blásið á það allt saman, ekkert gert með það — vegna þess að það þarf að nota eigið fé fyrirtækjanna til að styrkja framkvæmdir á Austurlandi. Ríkið er spara sér að leggja fram það fé sem það þarf að gera til þess að Landsvirkjun geti risið undir framkvæmdunum við Kárahnjúka. Og í staðinn fyrir að ríkið leggi það fé fram, sem eðlilegt væri, og ég mundi ekki sjá eftir því, því ég tel framkvæmdina hafa mikla þýðingu, þá er verið að taka þetta fé af Orkubúi Vestfjarða, taka möguleikana frá þeim sem veikastir eru fyrir til þess að geta notað Orkubúið til að sækja fram í atvinnumálum. Þetta er ekki góð stefna, virðulegi forseti, og ég algjörlega ósammála henni.

Ég held, virðulegi forseti, að þetta sé eitt allra versta frumvarp sem ég hef séð í langan tíma, lýsandi fyrir einkavæðingaráform á auðlindum sem eiga að vera þjóðareign, lýsandi fyrir skeytingarleysi í byggðamálum í kjördæmi sem býr við verri stöðu en flest önnur og lýsandi fyrir slælega frammistöðu ríkisstjórnarinnar í að selja raforku frá hinu mikla orkuveri í Kárahnjúkum. Frumvarpið sýnir því á margan hátt slæma hluti og slæma frammistöðu og það er engin ástæða til að greiða götu þess í gegnum þingið og ég held að stjórnarliðar verði einir að bera ábyrgðina á því að gera það að lögum ef þeir hafa staðfestan ásetning í þeim efnum.