133. löggjafarþing — 74. fundur,  20. feb. 2007.

stofnun hlutafélags um Orkubú Vestfjarða og Rafmagnsveitur ríkisins.

570. mál
[16:53]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er alveg rétt sem hv. þingmaður segir að þingheimur virðist ekki hafa áttað sig á mikilvægi þessa máls fyrr en það kom til 2. umr. á síðasta þingi. Ég tók þátt í þeim umræðum og síðan í þeirri umfjöllun sem fram fór eftir það en þá tókst að fyrirkoma því máli. En það er enn þá mikilvægara að fyrirkoma þessu máli núna vegna þess að það er greinilegt að sama gildir um það mál og þetta sem nú er til umræðu, ríkisstjórnin ætlar sér að ná því í gegn áður en kosið verður í vor. Það er mikilvægt í báðum málunum að það gerist ekki. En þrátt fyrir að mér finnist mikilvægt að málið sem nú er til umræðu fari ekki í gegn þá tel ég að mikilvægi hins málsins sé enn meira vegna þess að það er fordæmi fyrir því að breyta þjóðlendu úr þjóðareign í séreign og það gefur þá fordæmi fyrir framhaldinu, og það er það sem þeir sem hafa mestan áhuga á einkavæðingu í landinu vilja, að geta komið því af stað að þjóðlendur og þjóðareignir í auðlindum jarðar og undir hafsbotni verði að einkaeignarrétti. Þeir eru að koma fram í dagsljósið þessa dagana, m.a. t.d. Illugi Gunnarsson, sem hefur skrifað greinar um þetta efni og mætt í útvarps- og sjónvarpsviðtöl þar sem hann hefur lýst þessum skoðunum.

Það er örugglega ekki tilviljun að þetta gerist akkúrat á sama tíma og verið er að vinna að endurskoðun stjórnarskrárinnar, að þingmönnum Sjálfstæðisflokksins og fulltrúum í nefndinni virðist vera að takast að koma í veg fyrir að það verði tillaga stjórnarskrárnefndar að auðlindir sjávar verði að þjóðareign og festar í stjórnarskrá sem slíkar. Þetta er að gerast og um þetta verður kosið í vor. Þess vegna er mikilvægt að menn ræði þau mál og ég efast ekki um að hv. þm. (Forseti hringir.) Kristinn H. Gunnarsson mun standa sig vel í þeirri umræðu.