133. löggjafarþing — 74. fundur,  20. feb. 2007.

tollkvótar við innflutning landbúnaðarafurða.

621. mál
[17:05]
Hlusta

Rannveig Guðmundsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nei, þetta svarar ekki spurningu minni. Á að skilja málið þannig að heimildir fyrir magninu hangi á því hversu tilbúið Evrópusambandið er að heimila mikla kvóta til sín af skyri, smjöri og pylsum? Eða er það þannig að hvor aðili um sig, Ísland annars vegar og Evrópusambandið hins vegar, hafi það nokkuð opið hér eftir þar sem búið er að fá þessa skýru lagaheimild hversu mikið magn getur komið inn í landið ef vilji er fyrir því? Hæstv. landbúnaðarráðherra segir: Heimildin er þarna ef vörurnar vantar og þá er hægt að ákveða viðbótarkvóta. Ég var ekki að spyrja hvað gerðist ef vörurnar vantaði heldur hvað gerist ef ný ríkisstjórn tekur við og það verður beinlínis ákvörðun hennar að heimila að meira magn komi inn í landið en þessi ríkisstjórn eflaust er að ákveða með þessu ákvæði. Þarf nýja lagaheimild eða er þessi skýra lagaheimild og þessi samningur það opinn og víðtækur að hér sé stigið alveg nýtt skref í okkar sögu?