133. löggjafarþing — 74. fundur,  20. feb. 2007.

tollkvótar við innflutning landbúnaðarafurða.

621. mál
[17:07]
Hlusta

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það liggur auðvitað fyrir að taki ný ríkisstjórn við sem tekur aðrar ákvarðanir þá getur hún gert það. (Gripið fram í.) Það er algerlega ljóst og hefur alltaf verið ljóst. Ég veit alveg hvað hv. þingmaður er að spyrja um. Hv. þingmaður ber litla virðingu fyrir íslenskum landbúnaði og er í rauninni að fara inn í þá umræðu að flytja eigi inn vörur og virða ekki íslenskan landbúnað eða þá stöðu sem hann er í. Það er skemmtilegt til þess að hugsa að næstu daga verða „Food and Fun“ dagarnir hér á landi þar sem hið glæsilega íslenska veisluborð stendur yfir í Reykjavík og víðar og meistarakokkar koma hingað til að dásama okkar kjötvöru. Íslendingar eru vel meðvitaðir og þeir vilja auðvitað að matvælaverð lækki. Hér er verið að stíga skref sem mun hafa áhrif í þá veru. Auðvitað getur það gerst ef við tekur ríkisstjórn sem hefur allt önnur viðhorf gagnvart þessum matvælum, íslenskum landbúnaði, og vill gefa erlendum bændum markaðinn þá getur hún það. Það er bæði hægt að lækka tolla og gera hitt og þetta ef ríkisstjórninni dettur það í hug. Um þetta snýst málið.

Þeir sem nú fara með völdin bera mikla virðingu fyrir íslenskum landbúnaði og hafa í rauninni ákveðið að í gegnum fríverslunarsamninga, WTO-hagkerfið og samningana þar mæti íslenskur landbúnaður smátt og smátt meiri samkeppni en búi sig undir það eins og hann hefur verið að gera á síðustu 10 árum innan lands að efla búskapinn og stækka búin. Þess vegna er það von mín að hér sitji góð ríkisstjórn að kosningum loknum.